Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svikahrappur herjar á UNICEF og segir starfsfólk látið

21.04.2020 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: - - wikimedia
Óprúttinn einstaklingur herjar nú á UNIFEC á Íslandi, en viðkomandi sendir fólki skilaboð á samfélagsmiðlinum LinkedIn. Hann villir á sér heimildir sem yfirmaður ráðningamála og segist vera í leit að fjármálastjóra fyrir samtökin á Íslandi.

„Ósvífnin er slík að viðkomandi segir starfsfólk UNICEF vera að falla frá vegna COVID-19 og því sé hann í starfsmannaleit,“ segir í færslu á Facebook-síðu UNICEF á Íslandi þar sem athygli er vakin á svindlinu. Svo virðist sem viðkomandi reyni að fá fólk til að opna skjöl og skrá sig inn á óþekkta vefsíðu. Samtökin vilja því vara við þessum svikahrappi sem er ekki á vegum UNICEF, hvorki á alþjóðavettvangi né hér á Íslandi.

„Fjármálastýran okkar er blessunarlega við hestaheilsu, algjör heiðursmanneskja og höfum við engan áhuga á að skipta henni út,“ segir í færslunni.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV