Siglfirskur ljóðalestur slær í gegn

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson

Siglfirskur ljóðalestur slær í gegn

21.04.2020 - 09:47

Höfundar

Á dögunum vakti myndband frá Ljóðasetri Íslands mikla athygli en í því flytur hópur fólks lög fyrir íbúa í Skálarhlíð. Myndbandið er hluti af nær daglegum útsendingum sem Ljóðasetrið stendur fyrir á meðan að samkomubanni stendur.

Ljóðasetur Íslands hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum síðustu misseri í formi skemmtilegra innslaga þar sem vakin er athygli á ljóðum og lögum. Líkt og önnur söfn og samkomustaðir hafa engir viðburðir getað farið fram í Ljóðasetrinu. Forstöðumaður setursins, Þórarinn Hannesson, deyr þó ekki ráðalaus og segir að í öllum aðstæðum felist ný tækifæri og því var fljótlega ákveðið að hefja nær daglegar útsendingar þar sem fjallað er um ljóðlist og tónlist og sagt frá starfsemi Ljóðasetursins. 

Vinsælasta myndbandið sýnir hóp siglfirska söngfugla syngja fyrir utan Skálarhlíð, dvalarheimili aldraða á Siglufirði. „Ég hóaði í eitthvað af þessu siglfirska söngfólki sem er náttúrulega hér á hverju strái. Við fórum þarna tæplega tuttugu, við máttum ekki vera fleiri, og sungum fyrir íbúa á dvalarheimilinu,“ segir Þórarinn. 

Innslögin njóta mikilla vinsælda enda margt fróðlegt og skemmtilegt sem þar kemur fram. Þórarinn reikna ekki með öðru en að innslögin haldi áfram á meðan að setrið getur ekki haldið sína daglegu viðburði. „Þegar maður fær svona bilaðar hugmyndir og dettur í hug að framkvæma þær verður maður að halda sínu striki.“ Aðdáendur ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að Ljóðasetrið verði uppiskroppa með ljóð á meðan að samkomubanni stendur. „Við eigum þarna eitthvað um 3000 bækur á ljóðasetrinu þannig að efniviðurinn er nógur, það er bara að hafa hugmyndaflug til að vinna úr því,“ segir Þórarinn. 

Rætt var við Þórarinn Hannesson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 en fylgjast má með daglegum útsendingum frá Ljóðasetri Íslands á Facebook-síðu Ljóðasetursins.