Óttast að verið sé að bregðast við orðnum hlut

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að það vanti töluvert upp á að ríkisstjórnin sé að bregðast við ástandinu til samræmis við hversu stór krísan vegna Covid-19 er. Heildarumfang aðgerðanna sem ríkisstjórnin kynnti í dag er um 60 milljarðar króna.

„Ég fagna öllu sem kemur frá ríkisstjórninni til að bregðast við þessu ástandi og mun styðja hverja einustu aðgerð sem horfir til úrbóta. Ég átti samt von á umtalsvert víðtækari og stærri aðgerðum og ég held að það sama eigi við um mjög marga, fólk í atvinnulífinu, á vinnumarkaðnum og annars staðar,“ sagði Sigmundur Davíð í beinni útsendingu í fréttum RÚV klukkan tíu.  

„Ráðherrar eru  byrjaðir að viðurkenna að þetta sé líklega mesta krísa í öld. Þá skyldi maður ætla að aðgerðir ríkisstjórnarinnar tækju mið af því. Frekar en það sem ég óttast svolítið að sé að gerast, að sé verið að bregðast við orðnum hlut smátt og smátt til að geta haldið fleiri kynningarfundi og fleiri áætlanir. Fremur enn að sjá fyrir sér hvað stefnir í og reyna að lágmarka það tjón fyrirfram,“ segir Sigmundur Davíð. 

Sveitarfélögin þurfi beinan stuðning

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að aðgerðir sem styðji við  sveitarfélögin með beinum vanti inn í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. 

„Það er of mikil skammsýni líka þegar það kemur að aðgerðum fyrir sveitarfélögin sem bera uppi okkar dýrmætustu þjónustu; leikskóla, grunnskóla og öldrunarþjónstu,“ segir Logi.

„Versta niðurstaðan eftir nokkra mánuði væri sú að við þyrftum að fara  að ræða það hvort við þyrftum að fara að skera niður eða breyta grunnþjónustu varðandi börnin okkar og gamla fólkið.“

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi