Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Lækkun olíuverðs góð fyrir neytendur og fyrirtæki

21.04.2020 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stórlækkað heimsmarkaðsverð á olíu vinnur gegn verðbólgu hér á landi, og hefur jákvæð áhrif á neytendur og fyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi. Þetta segir forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. Olíuverð vestanhafs hefur farið undir núll sem skýrist af því að olíuframleiðendur geta ekki stöðvað olíulindir og geymslupláss er uppurið. Þeir þurfa því að borga hærra verð fyrir geymslu á olíunni en sem nemur verðmæti olíunnar sjálfrar.

Verð á bandarískri hráolíu til afgreiðslu í maí hækkaði yfir núllið í viðskiptum í Asíu í nótt og komst í 1,7 dollara á tunnu, eftir að hafa endað í mínus 37,6 dollurum þegar viðskiptum lauk í New York í gærkvöld. Verðið hefur aldrei verið lægra, en það má rekja til þess að dregið hefur stórlega úr eftirspurn vegna kórónuveirufaraldursins.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir að þessar verðlækkanir séu merkilegar í sögulegu ljósi.

„Þær eru merkilegar, sérstaklega á Ameríkumarkaði þar sem verðið varð neikvætt í gær og svo aftur í dag eftir að það jafnaði sig aðeins í viðskiptum í Asíu í nótt. En það fór aftur niður fyrir núllið í dag. Áhrifin hafa ekki verið jafnmikil á norðuruppsjávarolíuna, Brent-olíuna sem hefur meiri áhrif á eldsneytisverð hér á landi. En þetta hefur aldrei gerst áður í sögunni, að verðið á olíunni í Bandaríkjunum fari niður fyrir núll. Þannig að þetta eru sögulega stór tíðindi,“ segir Daníel.

Minnka framleiðsluna

Verðið á Brent Norðursjávarolíu hefur einnig lækkað mikið, en verðið á tunnu hefur verið á bilinu 18-22 dollarar í dag, sem er rúmlega 70 prósentum lægra verð en fyrir ári. Daníel segir að þetta eigi að hafa áhrif hér á landi, en sögulega skili 10% lækkun á heimsmarkaðsverði sér í eins til þriggja prósenta lækkun á bensínverði á dælum hér á landi. Ekki sé beint samband á milli því stór hluti bensínverðsins renni til ríkisins.

„En þetta hefur mjög jákvæð áhrif á eldsneytisverð og þar af leiðandi á verðbólguna. Og hefur einnig jákvæð áhrif á fyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi, þar sem stór hluti af kostnaðnum er olíukostnaður.“

Þannig að neytendur mega búast við því að olíuverð muni lækka, jafnvel mikið, á næstunni?

„Já ef þessi lækkun er komin til að vera. En ég á nú von á því að það verði tekin frekari skref núna á næstu dögum og vikum til þess að minnka framleiðslu á olíu í heiminum. Það er nú þegar búið að skera framleiðsluna niður um 10% en mér þykir líklegt að OPEC-ríkin muni koma sér saman um frekari skerðingar á næstunni.“

Borga kaupendum

Daníel segir að geymslupláss fyrir olíu sé meira í Evrópu en í Bandaríkjunum, sem skýri hvers vegna verðið lækkar ekki eins mikið í Evrópu og það hefur gert vestanhafs.

„Þar sem framleiðslan er töluvert meiri núna en eftirspurnin, þá er geymsluplássið smátt og smátt að klárast fyrir umframframleiðsluna og það er það sem olli því að verðið varð neikvætt í gær, að verðið fyrir að geyma olíuna var orðið hærra en verðið á sjálfri olíunni.“

Þannig að þetta snýst líka um það, að menn þurfa hreinlega að geyma olíuna?

„Já margar þessara olíulinda eru þannig að það er ekki hægt að skrúfa fyrir lindina. Það verður að dæla henni upp til þess að viðhalda brunnunum og þess vegna eru framleiðendur tilbúnir til þess að borga kaupendum fyrir að taka við henni,“ segir Daníel.