Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íþróttastarf barna heimilt innan og utandyra 4. maí

21.04.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Öll starfsemi sem snýr að börnum á að verða aftur með eðlilegum hætti eftir 4. maí. Þetta á við um leik- og grunnskóla, og íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn. Þetta segir heilbrigðisráðherra sem kynnti auglýsingu um tilslökun á samkomubanni á ríkisstjórnarfundi í morgun. Áður var ákveðið að íþróttastarf utandyra væri heimilt.

Stefnt er að því að birta auglýsinguna með frekari skýringum á tilslökun samkomubanns í Stjórnartíðindum í dag. Svandís segist hafa viljað skýra betur reglur þar sem fullorðnir koma saman og hins vegar börn. „Með þessari breytingu er verið að opna algjörlega fyrir eðlilegt skólastarf í grunn- og leikskólum. Það þýðir að tveggja metra reglan og fjarlægð milli fólks, það er ekki hægt að uppfylla þegar börn eru annars vegar. En það gildir um fullorðna sem eru með: kennarana og svo framvegis. Allir þurfa að gæta að því hér eftir sem hingað til og þá 50 manna hámark í sama rými,“ segir Svandís.

Öll starfsemi sem snýr að börnum með eðlilegum hætti

„Sama gildir þá um íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn. Við erum þá að sjá þau meginþáttaskil 4. maí að starfsemi sem snýst um börn að hún verði með eðlilegum hætti,“ segir Svandís jafnframt. Á blaðamannafundinum um slökun á samkomubanni í síðustu viku var talað um að íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri yrði leyft utandyra. Nú á að heimila allt íþróttastarf barna bæði innan og utandyra. 

Ferðatakmarkanir til landsins voru líka til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Um það gildir að allir sem koma til landsins til 15. maí þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví.

Eftir 4. maí verða fjöldatakmörk samkomubanns hækkuð úr 20 í 50 manns. Framhalds- og háskóla opnaðir aftur með takmörkunum og hefja á ný ýmsa þjónustu sem krefst nándar; svo sem á hárgreiðslu-, nudd- og snyrtistofum.

Næstu skref að óbreyttu í byrjun júní

En hvað með næstu skref eftir 4. maí? „Það er miðað við það að næsta skref eftir 4. maí sé kannski um það bil mánuði síðar; þremur fjórum til vikum síðar. Þá séum við í raun og veru að taka það skref að auka þennan fjölda úr fimmtíu í hærri tölu. Þá erum við líka að horfa til sundlauga og líkamsræktarstöðva og þess háttar starfsemi. Við getum ekki metið aðgerðirnar 4. maí fyrr en tveimur til þremur vikum síðar þannig við getum ekki ákveðið núna hvað stendur til að gera í byrjun júní. Að öllu óbreyttu væru skrefin að því tagi,“ segir Svandís.