Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heildarumfang aðgerðanna 60 milljarðar króna

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Umfang þessara aðgerða gæti numið um það bil 60 milljörðum þegar allt er talið saman,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um annan efnahagsaðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í dag. Það sé þó erfitt að meta hversu há upphæðin verður að lokum enda eru óvissuþættirnir margir.

Katrín, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu aðgerðirnar í Safnahúsinu í dag.

Meðal aðgerða sem gripið er til eru styrkir og frestanir á skattgreiðslum til fyrirtækja og lánveitingar. Þá verður félagsþjónusta efld og sjónum beint sérstaklega að því fólki sem má minnst við áfallinu.

„Það eru töluverðir óvissuþættir fólgnir í því þar sem stór hluti þessara aðgerða eru þessi stuðningslán sem við erum að kynna hér til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sömuleiðis tilhliðranir á skattgreiðslum,“ segir Katrín. „En heildarumfangið ef allt er nýtt verður nálægt 60 milljörðum.“

Aðgerðirnar munu ná til gríðarlega margra, segir Katrín. „Þetta er verulegur meirihluti starfandi fyrirtækja því þau eru flest lítil og meðalstór. Svo er þessi félagslegi pakki sem sömuleiðis er stór, upp á átta og hálfan milljarð sem nær utan um allmarga hópa í samfélaginu. Þannig að ég held að nánast allir muni finna fyrir þessum aðgerðum.“

Spurð hvort þetta sé nóg fyrir heimilin segir Katrín að allt sem stjórnvöld séu að gera sé fyrir fólkið í landinu. „Fólkið í landinu og fólkið sem er á ólíkum vinnustöðum. Sú hætta sem steðjar að okkur núna er þetta mikla atvinnuleysi og þess vegna erum við að tryggja að við getum komið fólki til starfa, að við getum haldið fólkið í störum, að við getum boðið upp á ný tækifæri.

„Um það snúast okkar aðgerðir; það er að tryggja afkomu fólks,“ segir Katrín Jakobsdóttir í viðtali eftir kynningarfund ríkisstjórnarinnar.