Gott veðurútlit - hægar suðlægar áttir framundan

21.04.2020 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Nú er milt veður í kortunum og vorið virðist komið fyrir alvöru. Það er útlit fyrir hægar suðlægar áttir næstu vikur og tveggja stafa tölur - sérstaklega þó fyrir norðan og austan.

Það eru rauðar tölur á veðurkortinu fyrir landið allt í dag og hitinn sums staðar kominn í 15 stig. Það stefnir því í fallegan vordag.

„Það er endanlega komið vor“

Og svona spáir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, fram í vikuna. „Það eru núna skil að ganga yfir vestanvert landið og þau klára sig í kvöld og þá styttir upp. Og svo á morgun og fimmtudag er útlit fyrir hæga suðlæga átt með smá skýjahulu og kannski lítilsháttar vætu hérna suðvestantil. En annarsstaðar á landinu þá er þurrt og milt veður. “
„Er endanlega komið vor?“
„Það er endanlega komið vor, en það gæti náttúrulega gert eitthvað hret síðar meir. En það er allavega ekki kortunum næstu vikurnar,“ segir Daníel.

Hægar suðlægar áttir næstu vikur

Sem sagt fínasta gróðrartíð fram undan, enda sér verulega á öllum þeim mikla snjó sem kominn var fyrir norðan og austan. Og þar er veðurútlitið best, en Daníel segir útlit fyrir hægar suðlægar áttir næstu vikur. „Og þá kannski nokkuð skýjað og fremur svalt um sunnanvert landið, en semsagt norðanlands og norðaustanlands þá er bjartara verður og tveggja stafa hitatölur að deginum.“  

Líklegt að sumar og vetur frjósi saman

Nú eru tveir dagar í sumardaginn fyrsta og samkvæmt þjóðtrúnni boðar það gott sumar, frjósi sumar og vetur saman. Daníel spáir frosti í innsveitum og á hálendinu aðfaranótt fimmtudags, en veðurfræðingurinn vill þó ekki ábyrgjast gott sumar þess vegna.