Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fleiri fara í göngutúr í samkomubanni

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu virðast hafa tekið til sín heilræði landlæknis um mikilvægi þess að hreyfa sig í samkomubanninu ef marka má tölur um fjölda gangandi vegfarenda í mars samanborið við sama mánuð í fyrra.

Talið var í sjálfvirkum teljurum við Eiðisgranda, Ægissíðu, Hörpu, Glæsibæ, á Geirsnefi, í Nauthólsvík, í Elliðaárdal, á Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut í Kópavogi, á Arnarnesvegi í Garðabæ og Strandgötu í Hafnarfirði. 

 

Umferð gangandi vegfarenda jókst á öllum stöðum nema við tónlistarhúsið Hörpu sem hefur verið fjölsótt af ferðamönnum. Fjarvera þeirra nú skýrir samdráttinn líklega að mestu leyti. Hlutfallslega jókst fjöldi gangandi vegfarenda mest á Strandgötu í Hafnarfirði í marsmánuði. Þar voru taldir 15.557 manns á gangi í mars samanborið við 6.478 í sama mánuði í fyrra eða 140 prósenta aukning. 

Minni hjólaumferð

Fjöldi fólks fer hjólandi til vinnu og samkomubannið og aukin vinna heima kann að skýra fækkun hjólreiðamanna á talningarstöðum. Sömu þróun hefur einnig mátt greina í minni bílaumferð sem þó virðist vera að aukast aftur. 

Hjólreiðafólk var hátt í 2.600 færra í Nauthólsvík í nýliðnum mars en í sama mánuði í fyrra. Gangandi vegfarendum fjölgaði hinsvegar þar um hátt í fimm þúsund.

Á aðeins einum stað varð aukning í hjólaumferð en það var á Eiðsgranda. Þar jókst hjólaumferð um níu prósent.

Á Strandgötu, þar sem gangandi vegfarendum fjölgaði mest, af þeim stöðum sem talið var á, dróst hjólaumferð saman um fjögur prósent. Hlutfallslega mesti samdrátturinn í hjólaumferð reyndist vera við Glæsibæ í Reykjavík en þar dróst hún saman um 43 prósent.  

Embætti landlæknis birti í byrjun mánaðarins pistil þar sem talað er um mikilvægi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega vellíðan, betri svefn og aukið þrek. „Hreyfum okkur rösklega á hverjum degi, fullorðnir í minnst 30 mínútur og börn í minnst 60 mínútur. Betra er að hreyfa sig lítið eitt fremur en ekki neitt og takmarka langvarandi kyrrsetu,“ segir í pistli sem má lesa á vefsíðu embættisins.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV