Bannar allan innflutning fólks til Bandaríkjanna

epa08374283 US President Donald J. Trump listens during a coronavirus task force news conference at the White House in Washington, DC, USA, 20 April 2020.  EPA-EFE/Tasos Katopodis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti í nótt að hann hygðist gefa út tilskipun um bann við öllum innflutningi fólks til Bandaríkjanna, vegna „innrásar ósýnilega óvinarins," eins og hann kallar kórónuveiruna sem veldur COVID-19, og til að verja störf bandarískra borgara. Nær 790.000 COVID-19 smit hafa verið staðfest í Bandaríkjunum og yfir 42.000 dauðsföll rakin til sjúkdómsins.

„Í ljósi innrásar Ósýnilega Óvinarins, og líka til að verja störf okkar STÓRKOSTLEGU bandarísku borgara, þá mun ég undirrita tilskipun um að stöðvað tímabundið fólksflutninga til Bandaríkjanna!" skrifaði Trump á Twitter. 22 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar misst vinnuna vegna farsóttarinnar og hins mikla samdráttar sem orðið hefur í atvinnulífinu vegna hennar. Forsetinn fer ekki nánar út í efnisatriði tilskipunarinnar og ekki kemur fram hversu lengi bannið á að gilda og hvernig á að framfylgja því.

Svarar gagnrýni með vísan til flugbanns á Kínverja og Evrópubúa

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir slæleg viðbrögð og frammistöðu í baráttunni við COVID-19, sérstaklega framan af, þegar hann líkti sóttinni við venjulega flensu sem Bandaríkjunum stæði lítil ógn af. Hann sneri svo við blaðinu og viðurkenndi að neyðarástand ríkti vegna veirunnar.

Þegar hann er gagnrýndur fyrir viðbrögð sín framan af bendir hann iðulega á það, að hann hafi bannað allt flug frá Kína til Bandaríkjanna strax í janúar, auk þess sem hann takmarkaði mjög allt flug frá Evrópu um miðjan mars.

Óþolinmóður vegna lömunar atvinnulífsins

Trump hefur þó verið gagnrýninn á þær róttæku aðgerðir sem gripið hefur verið til í hinum ýmsu ríkjum Bandaríkjanna til að hefta útbreiðslu veirunnar. Talar hann mjög fyrir því að höftum verði aflétt eins hratt og hægt er svo hjól atvinnulífsins geti farið að snúast óheft á nýjaleik, og þykir mörgum ríkisstjóranum hann vilja fara fullgeyst í þeim efnum.

Þá hefur yfirlýstur stuðningur hans við mótmæli fólks gegn útgöngu- og samkomubanni í hinum ýmsu ríkjum; aðgerðum sem hann hefur þó sjálfur lýst stuðningi við, vakið hörð viðbrögð.

Innflytjendamál voru og eru kosningamál Trumps

Í kosningabaráttu sinni 2016 gerði Trump það að einu helsta baráttumáli sínu, að draga úr straumi innflytjenda til landsins, löglegra en þó enn frekar ólöglegra. Fékk það baráttumál hans mikinn hljómgrunn hjá stórum hluta bandarískra kjósenda og hefur það enn. FJölmörg ríki önnur en Bandaríkin hafa gripið til þess ráðs að loka landamærum sínum að meira eða minna leyti fyrir umferð fólks vegna COVID-19 faraldursins. Nærtæk dæmi um það eru Danmörk og Grænland. 

Öll formleg kosningabarátta hefur legið meira og minna niðri síðustu vikur vegna farsóttarinnar, og hefur Trump verið gagnrýndur fyrir að nota upplýsingafundi Hvíta hússins um kórónuveirufaraldurinn til að flytja kosningaáróður frekar en upplýsingar. Þeirri gagnrýni vísar forsetinn á bug. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi