Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aukið fjárframlag til geðheilbrigðisþjónustu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einkareknum fjölmiðlum verður tryggður sérstakur rekstrarstuðningur á yfirstandandi ári. Þá verður sett fjármagn í að vinna gegn heimilisofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja. Þá verður jafnframt auknu fjármagni varið í geðheilbrigðisþjónustu. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, á fundi um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 í dag.

Í tilkynningu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar er bent á að fjölmiðlar hafi tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist. Í máli Sigurðar Inga kom fram að 350 milljónum verði varið til að styrkja fjölmiðlana.

Einum milljarði króna verður varið í álagsgreiðslur til framlínustarfsmanna. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar voru kynntar í dag.

Þá kemur fram að 2,2 milljörðum króna verði varið til að skapa þrjú þúsund tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 milljónum króna til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 milljónum króna veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum.

Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 milljörðum króna varið til félagslegra aðgerða í þeim áfanga sem kynntur var í dag.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV