Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbörgunarsveitir voru ræstar út á fimmta tímanum í dag þegar beiðni um aðstoð barst frá fiskibát í Skagafirði. Talsverður leki var kominn að bátnum.
Þyrlan, sem var á æfingu, hélt strax áleiðis á staðinn auk þess sem sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru ræstar út. Þá hafði gæslan samband við áhafnir fiskiskipa og báta í grenndinni, sem og báta sem voru í löndun á Sauðárkróki, og óskaði eftir því að þær héldu á staðinn.
Áhafnir bátanna brugðust skjótt við og rúmum tuttugu mínútum eftir neyðarkallið tókst þeim að koma fiskibátnum í tog og eru nú á leið á Sauðárkrók. Þar mun slökkvilið dæla upp úr bátnum. Í tilkynningu segir að Landhelgisgæslan kunni áhöfnunum bestu þakkir fyrir skjót viðbrögð.