Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aftökum í heiminum fækkar á milli ára

epa06820539 Amnesty International (Amnesty or AI) Thailand activists and volunteers hold placards as they gather to call for an end to executions in Thailand, outside the Bang Kwang Central Prison in Nonthaburi Province, Thailand, 19 June 2018. Thailand has carried out its first execution in nine years. Theerasak Longji, 26, who was convicted for the brutal killing of a 17-year-old boy in order to steal his mobile phone, was executed by lethal injection on 18 June 2018.  EPA-EFE/NARONG SANGNAK
Dauðarefsingum mótmælt í Taílandi Mynd: epa
Aftökum fækkaði um fimm prósent milli ára samkvæmt opinberum tölum og hafa ekki verið færri í tíu ár. Þeim fjölgaði hins vegar verulega í Sádi Arabíu og Írak. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesty International um dauðarefsingar á síðasta ári.

"Dauðarefsing er viðurstyggileg og ómanneskjuleg refsing og það eru engar trúverðugar sannanir fyrir því að þær hafi meiri fælingarmátt en fangelsisdómar. Mikill meirihluti þjóða heims viðurkennir þetta og það er hvetjandi að sjá að aftökum heldur áfram að fækka á heimsvísu," segir Clare Algar, framkvæmdastjóri hjá Amnesty International í kynningu á skýrslu samtakanna um dauðarefsingar árið 2019.

Fjölgun í Sádi Arabíu, tvöföldun í Írak

Aftökum hefur þó ekki fækkað alstaðar. Þannig tóku Sádi Arabar 184 af lífi í fyrra svo vitað sé, fleiri en nokkru sinni fyrr, en voru 149 í fyrra. Minnst hundrað voru líflátin í Írak, tvöfalt fleiri en árið áður.

Fyrir utan Kína er Íran áfram það land í heiminum sem tekur flesta borgara sína af lífi, þar voru aftökur minnst 251 samkvæmt heimildum Amnesty, en talsverð leynd hvílir yfir aftökum þar í landi og tölur því á reiki.

Talið að þúsundir séu teknar af lífi í Kína

Kína er ekki með í tölum Amnesty því þar eru aftökur ríkisleyndarmál og engar áreiðanlegar tölur að fá. Hins vegar er gengið út frá því að aftökur skipti þar þúsundum fremur en hundruðum á ári hverju.

Opinberlega framfylgja aðeins tuttugu ríki í heiminum dauðadómum. Á eftir Kína, Íran, Sádi-Arabíu og Írak koma Egyptaland, þar sem 32 aftökur fóru fram árið 2019, og Bandaríkin, þar sem þær voru 22.

Víða hvílir leynd yfir aftökum

Clare Algar segir aftökur víða fara leynt og dauðadæmda fanga jafnvel líflátna án þess að lögmenn þeirra, fjölskyldur eða jafnvel þeir sjálfir fái nokkurn fyrirvara. Þá séu aftökur huldar leyndarhjúp í fleiri löndum en Kína, svo erfitt sé að fullyrða með vissu um raunverulegan fjölda þeirra sem líflátnir eru. Þetta á til dæmis við í Víetnam og Norður Kóreu, auk Írans sem fyrr var nefnt.

Skýrsla Amnesty International um aftökur í heiminum árið 2019 er fáanleg á ensku, persnesku, rússnesku, spænsku, frönsku og arabísku. Hægt er að nálgast hana með því að smella hér.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV