Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 100.000 COVID-19 tilfelli í Mið- og Suður-Ameríku

20.04.2020 - 02:17
epa08371198 Brazilian workers dig graves for COVID-19 victims at Vila Formosa cemetry in Sao Paulo, Brazi, 18 April 2020. Countries around the world are taking measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/FERNANDO BIZERRA JR
Starfsmenn Vila Formosa-kirkjugarðsins í Sao Paulo taka grafir fyrir fórnarlömb kórónuveirufaraldursins sem kostað hefur þúsundir mannslífa í Brasilíu Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjöldi staðfestra COVID-19 smita í Mið- og Suður-Ameríku er nú kominn yfir 100.000 og dauðsföll sem rakin hafa verið til sjúkdómsins nálgast 5.000. Þetta er niðurstaða samantektar AFP-fréttastofunnar á opinberum tölum frá öllum Mið- og Suður-Ameríkuríkjum um útbreiðslu og afleiðingar kórónuveirufaraldursins.

Bolsonaro tekur þátt í mótmælum gegn smitvörnum

Flest staðfest tilfelli eru í Brasilíu. Þar hafa 38.654 smit verið staðfest og 2.462 dauðsföll. Sérfræðingar eru þó á því að hvort tveggja smitin og dauðsföllin séu mun fleiri, jafnvel margfalt fleiri, enda lítið um skimun og sýnatöku í landinu og samræmd gagnasöfnun innan heilbrigðiskerfisins í molum.

Jair Bolsonaro, Brasilíuforseti, tók á sunnudag þátt í fámennri mótmælagöngu í Brasilíuborg, þar sem um 600 manns mótmæltu samkomu- og ferðatakmörkunum yfirvalda, sem miða að því að stemma stigu við farsóttinni.

Þúsundir óútskýrðra dauðsfalla í Ekvador

Næstflest eru tilfellin í Perú, rúmlega 15.600, en dauðsföllin 400. Í Ekvador eru staðfest smit tæplega 9.500 og 474 dauðsföll hafa verið rakin til COVID-19 með óyggjandi hætti. Í fjölmennasta héraði og borg landsins, Guayas og Guayaquil, hafa þó þúsundir dáið á undanförnum vikum umfram það sem gerist í venjulegu árferði og þykir þetta benda eindregið til þess að mun fleiri hafi dáið úr sjúkdómnum en opinberar tölur gefa til kynna.

Þetta á við um fleiri lönd í álfunni, en samkvæmt fyrirliggjandi, opinberum gögnum höfðu 100,952 smitast af COVID-19 í Mið- og Suður-Ameríku á sunnudag og 4,924 dáið af þeim sökum.