Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tvö ný smit greindust í gær

20.04.2020 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Tvö ný smit greindust í gær, samkvæmt nýjum tölum á covid.is. Bæði smitin eru á Vestfjörðum. Annar þeirra sem greindist var þegar í sóttkví. Alls hafa 1.773 smit verið staðfest og mikill meirihluti náð bata, 1.362 manns.

Mun færri sýni voru greind í gær miðað við dagana á undan eða 381 sýni.  285 þeirra voru greind hjá Íslenskri erfðagreiningu og greindist smit í einu þeirra. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans greindi 96 sýni og fannst smit í einu þeirra. Til samanburðar voru 1.671 sýni greind í gær og ellefu smit fundust. Hlutfall smita í greindum sýnum breytist lítið milli daga. 

Alls liggja 28 á sjúkrahúsi smitaðir af COVID-19, þar af fjórir á gjörgæsludeild. 

Kona á níræðisaldri lést af völdum COVID-19 á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í gær. Þetta er annað andlátið á Bergi sem tengt er farsóttinni og það tíunda á Íslandi. Greint er frá andlátinu á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. 

 
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV