Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tveir hjá Mountaineers með réttarstöðu sakbornings

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Tveir starfsmenn fyrirtækisins Mountaineers of Iceland eru með réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglu á vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins við Langjökul í janúar. „Annar er almennur starfsmaður en hinn er rekstraraðili hjá fyrirtækinu,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Oddur segir að rannsókn málsins sé nokkurn veginn lokið, og að það verði sent ákærusviði fljótlega.

Þrjátíu og níu erlendir ferðamenn óttuðust um líf sitt að morgni 8. janúar þegar þeir máttu hírast úti í hríðarbyl klukkutímum saman við Langjökul, í skipulagðri vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins Mountaineers of Iceland. Varað hafði verið við óveðri á svæðinu. Einhverjir ferðamannanna hafa leitað réttar síns gagnvart fyrirtækinu.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að samkvæmt sakamálalögum beri lögreglunni skylda til að skoða slys og aðrar ófarir, óháð því hvort saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Lögreglan hafi því unnið að rannsókn þessa máls undanfarna mánuði. 

Meðal annars hefur verið til skoðunar hvort ferðin kunni að flokkast sem hættubrot af hálfu Mountaineers of Iceland og hvort athæfi fyrirtækisins teljist saknæmt.

17 skýrslur

Oddur segir að rannsóknin hafi verið umfangsmikil, 17 skýrslur hafi verið teknar og að 61 sé skráður sem aðili að málinu. Oddur segir að rannsókn málsins sé í raun lokið og að síðustu gögn séu að skila sér. Málið verði því fljótlega sent til ákærusviðs, sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út.

Oddur segir að tvímenningarnir sem eru með réttarstöðu sakbornings í málinu hafi fengið þá stöðu við skýrslutökur í málinu.

Mountaineers of Iceland hörmuðu atburðinn á sínum tíma og báðu alla hlutaðeigandi velvirðingar. 

Fyrirtækið lenti í sambærilegu atviki fyrir rúmlega þremur árum þegar áströlsk hjón sem voru í ferð hjá fyrirtækinu urðu viðskila við hóp sinn og óttuðust að verða úti, þar til þeim var komið til bjargar um sjö klukkustundum síðar. Hjónin fengu að lokum bætur vegna málsins.