Tók tíu mínútur að fljúga hjarta

20.04.2020 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Flightradar
Flugferillinn fyrir hjartað sem flugmenn Icelandair flugu yfir höfuðborgarsvæðið var æfður í flughermi áður en flogið var. Hugmyndina að þessu fékk Guðmundur Kristinn Erlendsson, flugstjóri hjá Icelandair, á fimmtudag. Daginn eftir var æft í flugherminum. Þegar svo kom að því að fara að fljúga í hjarta var miklu vindasamara en gert var ráð fyrir og þá þurfti að breyta plönum, segir Guðmundur.

Guðmundur segir í samtali við fréttastofu að hann og Pétur Guðmundsson og Kristinn Arnar Svavarsson hafi mætt til vinnu klukkan sjö á laugardagsmorgun til þess að fljúga til Kína til þess að sækja lækningabúnað. 36 klukkustundum síðar hafi þeir verið komnir aftur til baka til Íslands. 

Þá reyndust veðurskilyrði vera nokkuð ólík því sem lagt var upp með í æfingum í flughermi. Guðmundur segir að til þess að hjartað yrði ekki miklu stærra vinstra megin en hægra megin hafi þeir þurft að breyta flughraðanum nokkrum sinnum. Hægt var á vélinni þegar meðvindur var og hraðað þegar mótvindur var. Því hafi væntanlega margir íbúar á Seltjarnarnesi og Reykjavík heyrt vel í hreyflum vélarinnar þegar flogið var gegn vindi. Alls tók tíu mínútur að fljúga hjartað.

Skýjað var þegar hjartað var flogið og því sáu flugmennirnir ekkert nema hvítt út um gluggann. Tilgangurinn með því að mynda hjarta var sá að þakka heilbrigðisstarfsfólki fyrir störf sín á tímum kórónuveirunnar. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi