Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tilkynningum um börn í bráðri hættu hefur fjölgað

Skjáskot úr myndbandi UNICEF úr átakinu Stöðvum feluleikinn gegn ofbeldi á börnum á Íslandi.
 Mynd: UNICEF
Tilkynningum um börn í yfirvofandi hættu hefur fjölgað verulega að undanförnu hjá Barnavernd Reykjavíkur. Fleiri börn hafa tilkynnt um vanrækslu. Barnaverndarstofa hefur áhyggjur af aukningu tilkynninga um líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn börnum. 

Samkomubannið gæti verið ástæðan

Í mars barst 71 tilkynning um barn í yfirvofandi hættu til Barnaverndar Reykjavíkur og þá hringja fleiri börn nú en áður. Þau voru ellefu í mars. 

„Það er töluverð aukning miðað við aðra mánuði bæði þessa árs og í rauninni annarra ára. Það hefur verið svona ein, tvær tilkynningar á mánuði en í mars voru sem sagt ellefu tilkynningar,“ segir Hákon Sigursteinsson framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

Hann segir að möguleg ástæða gæti verið samkomubannið sem sett var á 16. mars og hert 22. mars.

„Sem að kannski gefur til kynna að staðan á heimilunum gæti verið erfiðari heldur en áður án þess að maður þori neitt að fullyrða um það en að öllum líkindum gæti það verið málið.“ 

Klár munur frá í fyrra á alvarlegum tilkynningum

Bráða- og viðbragðsteymi Barnaverndar bregst strax við tilkynningum séu þær metnar svo. Aukning hefur líka orðið í öðrum tilkynningum í mars eða um fimm til sex prósent. 

„Og ef við rýnum í tölur þar sem við horfum til alvarleika, þar sem að tilkynnandinn metur barn í alvarlegri hættu þá hefur í rauninni þeim tilkynningum fjölgað, þar sem að tilkynnandinn metur barn vera í yfirvofandi hættu. Það er myndi ég segja klár munur á milli ára núna 2020 og 2019. Og bara ef maður horfir til þess þá segir það annars vegar eitthvað til um stöðuna í þjóðfélaginu og svo hins vegar kannski stöðuna bara hér og nú út af þessu COVID ástandi.“ 

71 tilkynning barst í mars um barn í yfirvofandi hættu. Tölur fyrir apríl koma í lok mánaðarins. Í tölfræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar má finna töflur frá Barnavernd.

Aukningin áhyggjuefni

Barnaverndarstofa birti í morgun samantekt á tilkynningum til barnaverndarnefnda í landinu í morgs og segir aukningu tilkynninga um börn sem beitt séu líkamlegu og andlegu ofbeldi vera áhyggjuefni. Þá hafi tilkynningum þar sem börn verða fyrir heimilisofbeldi líka fjölgað en dregið hafi úr tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna. 

Aðeins fjölgun hjá neyðarmóttöku 

Eyrún Jónsdóttir hjá neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á bráðamóttöku Landspítalans segir að síðan neyðarstigi var lýst yfir 6. mars þá hafi aðeins fjölgað komum fólks í fíkniefnaneyslu á neyðarmóttökuna. Konur í þessum hópi séu útsettari fyrir ofbeldi sem sé meira nú hjá fólki í neyslu. Þá séu líka dæmi um konur sem séu í ofbeldissamböndum hafi komið. Hins vegar sé ástandið þannig nú að þær komist ekki frá og því megi búast við að heimilisofbeldistilfellum fjölgi þegar samkomutakmörkunum verði aflétt. 

Ekki er merkjanleg fjölgun í kynferðisofbeldismálum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónnn í kynferðisbrotadeild.