Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þjóðleikhússafmæli frestað fram á haust

20.04.2020 - 13:50
Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Sjötíu ár eru í dag frá því að Þjóðleikhúsið tók til starfa. Hætta varð við fyrirhuguð afmælishátíðarhöld, eins og frumsýningu á nýrri uppfærslu Kardimommubæjar, vegna kórónuveirunnar.

Grunnur var tekinn að Þjóðleikhúsinu árið 1929 en árið 1941 stöðvuðust byggingaframkvæmdir vegna skorts á fjárveitingum. Það ár tók breski herinn leikhúsið hernámi og notaði það sem hergagnageymslu. Nokkur ráðuneyti höfðu líka skjalageymslur sínar í húsinu. Þegar Bretarnir yfirgáfu húsið var lokið við bygginguna og Þjóðleikhúsið vígt 20. apríl 1950.

Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins. 

„Við ætlum að fagna afmælinu við þessar skrýtnu aðstæður aðeins á sumardaginn fyrsta, meðal annars í samstarfi við RÚV með sýningu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki frá 1999. En auðvitað höfðum við ætlað okkur að fagna afmælinu  með öðrum hætti. Við ætluðum að frumsýna Kardimommubæinn eftir Torbjörn Egner og vera með ýmislegt í gangi í tengslum við það. En í staðinn fáum svolítið að fresta veislunni þangað til í haust,“ segir Melkorka Tekla.