Tekist á um „opnun Ameríku“ í skugga COVID-19

epa08364886 A person walks past a vacant store front on 42nd street near Grand Central Terminal in New York, New York, USA, 15 April 2020. The United States’ Commerce Department reported that retail sales in March 2020 dropped 8.7 percent, one of the largest drops in many decades. Restrictions requiring the shut down of all non-essential businesses are still in place around the United States to stop the spread of the highly-contagious coronavirus which are having massive economic implications. Politicians and public health officials are begining to suggest plans for lifting some rules in an effort to get parts of the economy going again; many health officials are worried this will lead to another spike in COVID-19 cases.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um leið og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsir því yfir að fara verði afar varlega í að aflétta hvers kyns höftum og hömlum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar leggur hann mikla áherslu á að koma hjólum atvinnulífsins aftur á fullan snúning sem fyrst. Ríkisstjórar einstakra ríkja segja langt í að það geti gerst og saka alríkisstjórnina um stefnuleysi og seinagang. Nær 41.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Bandaríkjunum og staðfest smit nálgast 760.000.

 

Um 22 milljónir Bandaríkjamanna hafa misst vinnuna á undanförnum vikum vegna efnahagskreppunnar sem rakin er til COVID-19 faraldursins sem nú heldur Bandaríkjunum í heljargreipum, rétt eins og heimsbyggðinni allri. 

Trump kynnti á dögunum þriggja þrepa áætlun um opnun landsins og endurræsingu atvinnulífsins, þar sem fyrsta þrepið felst í að aflétta útgöngubanni yfir heilbrigðu fólki og heimila veitingastöðum, kvikmyndahúsum, íþróttahöllum, líkamsræktarstöðvum, kirkjum og öðrum bænahúsum að hefja starfsemi á ný, að því gefnu að gætt sé að nægilegu bili milli manna.

Víðtæk skimun er frumforsenda opnunar

Sérfræðingar - þar á meðal sérfræðingar á vegum Trump-stjórnarinnar - eru á einu máli um að víðtæk skimun til að ákvarða raunverulega útbreiðslu sjúkdómsins sé frumforsenda þess að hægt sé að slaka á höftum og lokunum.

Mike Pence, varaforseti, sem fer fyrir COVID-19 aðgerðastjórn Trumps, fullyrti í viðtali á Fox-sjónvarpsstöðinni í gær, að öll ríki Bandaríkjanna væru í stakk búin til að taka og greina nógu mörg sýni til að tryggja að óhætt væri að stíga þetta fyrsta skref. Þessu vísa margir ríkisstjórar á bug.

„Hreinir hugarórar“

Ralph Northam, ríkisstjóri Virginíu, segir þetta hreina hugaróra og Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, segir að þótt hennar fólk gæti vissulega tekið tvisvar og jafnvel þrisvar sinnum fleiri sýni en nú er gert á degi hverjum, þá vanti einfaldlega meiri sýnatökubúnað, og hann verði að koma frá alríkisstjórninni.

Trump skrifaði þá á Twitter að hann hefði rétt fyrir sér um skimanir og sýnatöku, en „Ríkisstjórar verða að herða sig og gera það sem gera þarf.“

Trump styður mótmæli gegn aðgerðum sem hann mælti með

Nokkuð hefur verið um mótmæli gegn útgöngu- og samkomubanni í einstökum ríkjum, og hefur forsetinn hvatt mótmælendur til dáða, meðal annars á Twitter, þar sem hann hefur kallað eftir „frelsun“ Michigan, Minnesota og Virginíu - sem eiga það öll sameiginlegt að þar er ríkisstjórinn Demókrati. Hefur þetta verið harðlega gagnrýnt og Trump sakaður um að snúa baráttunni við mannskæða farsóttina upp í kosningabaráttu fyrir sjálfan sig.

„Forsetinn okkar hefur augljóslega ekki megnað að tryggja nægilega skimun. Nú hefur hann ákveðið að einbeita sér að mótmælum,“ sagði Demókratinn Northam í viðtali við CNN. Jay Inslee, Demókrati og ríkisstjóri Washingtonríkis, var enn beinskeyttari í sinni gagnrýni. „Að bandarískur forseti skuli hvetja fólk til lögbrota ... það er hættulegt,“ sagði Inslee.

Repúblikaninn Larry Hogan, ríkisstjóri Maryland og formaður samtaka bandarískra ríkisstjóra, sagði hvatningu forsetans til mótmælenda „ekki hjálplega,“ í samtali við fréttamann CNN. „Að hvetja fólk til að fara og mótmæla aðgerðum sem þú varst að enda við að mæla með, það er bara engin glóra í því,“ sagði Hogan.

Sumir ríkisstjórar „gengið of langt“

Trump hefur réttlætt hvatningarorð sín til mótmælenda og hélt því áfram á daglegum upplýsingafundi Hvíta hússins um faraldurinn í gærkvöld. „Sumir ríkisstjórar hafa gengið of langt“ í því að setja skorður við starfsemi fyrirtækja, sagði forsetinn. Mótmælendurnir „elska landið okkar,“ bætti hann við, „og þeir vilja fara aftur að vinna.“

Nær 41.000 dáin úr COVID-19 í Bandaríkjunum

1.997 manns dóu úr COVID-19 í Bandaríkjunum frá laugardagskvöldi til sunnudagskvölds, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans í Maryland. Staðfest dauðsföll af völdum sjúkdómsins nálgast að vera 41.000 þar í landi og nær 760.000 manns hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur sjúkdómnum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi