Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóttkví fyrir alla sem koma að utan til 15. maí

20.04.2020 - 18:37
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Allir sem koma hingað til lands fram til 15. maí þurfa að fara í sóttkví samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis. Hann segir miklu meiri hættu nú en áður að smit berist hingað með útlendingum. Áður voru þeir undanþegnir sóttkví. 

Faraldur í mikilli niðursveiflu

Óvenjufá sýni voru tekin í gær, 381. Einu tvö smitin sem greind voru í gær voru á Vestfjörðum. 402 eru nú með COVID en 1362 hafa náð bata. Sóttvarnalæknir segir að faraldurinn sé áfram í mikilli niðursveiflu. 

Nú eru 23 COVID-sjúklingar á Landspítala, þar af fjórir á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. Á sjúkrahúsinu á Akureyri eru tveir, annar þeirra er á gjörgæslu. 

Búin að ná heildarfjölda smita samkvæmt spálíkaninu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Erum búin að ná hámarki samkvæmt líklegustu spá.

Í uppfærðu spálíkani Háskóla Íslands sem birt var í dag sést að fjöldi greindra tilfella nú, þ.e. um 1800 manns, er sami fjöldinn og vísindamenn telja að smitist hér í heild í þessari bylgju faraldursins eins og þeir orða það. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Virk smit eru nú færri en líklegasta spá.

Ef litið er á hve margir eru smitaðir á hverjum degi þá sést að fyrst fylgja smitin líklegri spá en nú síðan 6. apríl eru færri smitaðir er spáð hafði verið. 

Valkvæðar aðgerðir heimilar fyrr en áætlað var

Landlæknir sagði á upplýsingafundinum í dag að hún hefði lagt til við heilbrigðisráðherra að heimila aftur valkvæðar skurðaðgerðir og speglanir frá 4. maí. Áður stóð til að þær yrðu ekki heimilaðar til loka maí. 

Búist er við að auglýsing heilbrigðisráðherra er varðar afléttingu á samkomutakmörkunum verði birt á morgun. Sóttvarnalæknir vonar að í henni verði spurningum svarað um meðal annars skólahald og íþróttastarf.

Sóttvarnalæknir ekki viss um hvað tekur við 

Þá leggur hann til að allir sem hingað koma fram til 15. maí þurfi að fara í sóttkví í tvær vikur. Slík kvöð hefur verið í gildi síðan um miðjan mars fyrir þá sem búsettir eru hér en ekki fyrir erlenda gesti. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það hafi sýnt sig þegar ákveðið var að allir Íslendingar skyldu fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu að það hafi verið rétt ákvöðrun því smit hafi fyrst og fremst greinst hér frá Íslendingum. 

„Núna er staðan bara allt önnur. Núna erum við búin að grípa til mjög harðra aðgerða, Íslendingar eru búnir að grípa til mjög harðra aðgerða, íþyngjandi aðgerða hér innanlands. Við erum búin að stoppa smitið hér innanlands. Smit er mjög algengt í löndunum í kringum okkur. Þannig að það er miklu meiri hætta núna að smit berist hingað með útlendingum eða Íslendingum sem eru að ferðast erlendis heldur en áður. Og það er það sem við þurfum að verja,“ segir hann.

Þegar nær dregur 15. maí verður staðan endurmetin.

„Þannig að ég er ekkert endilega tilbúin að þessari stundu að segja hvað tekur við því að ég er ekki endilega viss um það sjálfur því maður er að endurskoða sína afstöðu nánast daglega í þessum málum.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV