Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skjálftinn stærri en talið var og einn stærsti frá gosi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Veðurstofan hefur uppfært styrk jarðskjálftans sem varð í Bárðarbungu laust fyrir klukkan fjögur í nótt. Hann reyndist 4,8 að stærð og er einn stærsti skjálfti sem mælst hefur á svæðinu síðan gaus hófst í Holuhrauni í ágúst 2014.

Fyrstu tölur frá Veðurstofunni í nótt gerðu ráð fyrir að stærð skjálftans hafi verið 3,5 sem síðar var uppfært í 4,5. Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að skjálftar á svæðinu séu nokkuð einstakir á heimsvísu og því þurfi alltaf að endurreikna og reyna þannig að fá raunstærðir þeirra. Ljóst sé að um stóran skjálfta sé að ræða sem sló út á mælum í nágrenninu. 

„Það sem við teljum að sé að gerast þarna er að kvikusöfnun er í gangi í Bárðarbungu. Það getur staðið yfir í mjög langan tíma. Meðan þetta gerist þá er svæðið að þenjast út,“ segir Kristín, og því er erfitt að segja til um aukinn gosóróa.

„Maður veit aldrei hvað gerist næst, en svona skjálftavirkni var til dæmis viðvarandi á síðustu öld,“ segir Kristín Jónsdóttir.

Skjálfti af svipaðri stærðargráðu varð í Bárðarbungu þann 5. janúar síðastliðinn.