Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sex í sóttkví í Eyjum en voru yfir 500 þegar mest var

20.04.2020 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Fjórar vikur eru liðnar síðan hertar samkomutakmarkanir tóku gildi í Vestmannaeyjum. Fyrsta tilfelli COVID-19 greindist þar fyrir sléttum mánuði og voru tilfellin orðin 51 tíu dögum síðar. Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, segir að sex séu nú í sóttkví í Vestmannaeyjum en voru yfir 500 þegar mest var.

Hjörtur starfar í Vestmannaeyjum og fór yfir stöðuna þar á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann segir að íbúum finnist sem það sé lengra síðan en fjórar vikur frá því að samkomutakmarkanir tóku gildi. Fjölmargir hafi á stuttum tíma farið í sóttkví, þar á meðal heilbrigðisstarfsfólk.

Hertar reglur hafi verið settar á samkomur og ekki fleiri en tíu mátt koma saman á einum stað. Mikill kraftur hafi verið lagður í smitrakningu og reynt að hafa uppi á tilfellum sem fyrst. „Það sem hefur takmarkað það svolítið eru samgöngur, það er að koma ekki sýnum alltaf strax til rannsóknar. Þannig að við vorum á tímabili, og erum að skima hringinn í kringum þá sem eru í sóttkví. Taka sýnin áður en viðkomandi er með einkenni. Ég held að þetta hafi líka leitt til þess að við fengum þarna fjölgun í upphafi.“

Staðfestum smitum fækkar 

Mikill samtakamáttur hafi verið í bænum. Eftir þessa fyrstu tíu daga hafi eitt til fjögur tilfelli greinst á dag. Takmarkað magn hafi þá verið á sýnatökupinnum í Eyjum og farið í minni skimanir, eins og til dæmis í kringum tilfelli sem hafi komið upp í skólanum. 

Hjörtur segir að talið hafi verið þörf á stærri skimun og í samtarfi við Íslenska erfðagreiningu hafi verið tekin 1.500 sýni í byrjun apríl. „Og greindum þá 33 tilfellli á þeim dögum. Nokkur þeirra voru einkennalaus. Eftir þetta hefur síðan bara greinst eitt tilfelli sem tengdist öðru tilfelli. Einkennalaus einstaklingur sem sennilega var í lok síns smits og hafði verið í sóttkví áður.“

Hjörtur segir gaman að segja frá því að að sex séu nú í sóttkví í Vestmannaeyjum en hafi verið yfir 500 á tímabili. Tíu einstaklingar séu í einangrun og 94 útskrifast. „Það er mjög ánægjulegt og þetta hefur leitt til þess að við höfum getað aflétt þessum hertu aðgerðum hér hvað varðar samskipti fólks. Það er ekki hægt að takast á við þetta nema með samtakamætti og samstöðu fólks og fjölmargir komið að þessu verkefni.“