Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Saka hermenn um aftökur 31 manns án dóms og laga

20.04.2020 - 05:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Öryggissveitir stjórnvalda í Vestur-Afríkuríkinu Búrkína Fasó eru sagðar hafa tekið 31 óvopnaðan fanga af lífi, án dóms og laga, fyrr í þessum mánuði. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch, eða Mannréttindavaktin, greindu frá þessu í morgun og krefjast ítarlegrar rannsóknar þegar í stað.

„Hrottaleg skrumskæling“ á hryðjuverkaaðgerð

Fangarnir, allt karlmenn úr þjóðarbroti Fulani-fólksins, voru að sögn vitna líflátnir aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þeir voru handteknir hinn 9. apríl í bænum Djibo, um 200 kílómetra norður af höfuðborginni Ouagadougou. Fangelsun mannanna og aftökurnar voru „hrottaleg skrumskæling á aðgerð gegn hryðjuverkum, sem mögulega eru stríðsglæpur og geta leitt til enn frekari grimmdarverka," sagði Corinne Dufka, sem fer með málefni Sahel-svæðisins í Afríku hjá Mannréttindavaktinni.

Úsendarar samtakanna ræddu við 17 manns út af aftökunum, þar á meðal eru tólf sem urðu vitni að hvoru tveggja handtökunum og greftrun hinna látnu. Heimafólk grunar að ráðist hafi verið á mennina í misgripum fyrir vopnaða íslamista, sem sést hafa á sveimi nærri Djibo upp á síðkastið.

Skotnir til bana með bundnar hendur

Haft er eftir sjónarvottum að tugir vopnaðra stjórnarhermanna hafi tekið þátt í aðgerðinni, sem hafi staðið yfir í nokkrar klukkustundir, segir í tilkynningu Mannréttindavaktarinnar. Mönnunum hafi verið ekið á brott í bílalest sem í voru allt að tíu farartæki, þar á meðal brynvarinn trukkur og nokkrir pallbílar, auk mótorhjóla.

Nokkru síðar, eftir talsverða skothríð, fundu heimamenn lík 31 manns sem síðast sást til í haldi hermannanna, að sögn Mannréttindavaktarinnar. Hendur margra þeirra voru bundnar og einnig var bundið fyrir augu sumra þeirra. Enginn sjónarvottanna kannaðist við að hafa séð hina látnu með skotvopn í hönd.

Mannréttindavaktin segist hafa sent niðurstöður rannsóknar sinnar til yfirvalda í Búrkína Fasó, en ekki kemur fram hvort einhver svör hafi borist frá þeim. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV