Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rúmar 80 milljónir í tilraunaverkefni í Landeyjahöfn

20.04.2020 - 09:51
Mynd með færslu
Frá Landeyjahöfn. Mynd: Vegagerðin
„Tilraunaverkefninu er lokið að sinni a.m.k. en það gekk út á að fá það afkastamikið skip til dýpkunar að ef höfnin lokast þá myndi það taka mjög skamman tíma að opna aftur,“ segir í skriflegu svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn fréttastofu um tilraunaverkefni Vegagerðarinnar og danska dýpkunarfyrirtækisins Rohde Nielsen A/S um dýpkun í Landeyjahöfn í febrúar og mars. Verkefnið kostaði rúmar 80 milljónir og á samningstímanum voru fjarlægðir um 90.000 rúmmetrar af efni úr höfninni.

Tilraunaverkefnið var ekki útboðsskylt. Samningurinn gilti frá 15. febrúar og út marsmánuð, þegar umsamin vordýpkun tók við, en íslenska fyrirtækið Björgun ehf. sinnir henni.

„Afköst dýpkunarskips þurfa að vera það mikil að ná megi að opna höfnina á milli lægða en sá tími getur verið mjög stuttur, þess vegna 1-2 dagar. Ölduhæð er oft þannig í Landeyjahöfn að engin dýpkunarskip geta unnið þar og því þarf að afkasta miklu þegar færi gefst. Í þessu verkefni var lagt upp með að velja þannig skip, skip með mjög kraftmiklar vélar og búnað,“ segir í svari Vegagerðarinnar, en það var danska dýpkunarskipið TRUD sem var notað til verksins í febrúar og mars.

Afkastaminni skip innanlands

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var verktakakostnaður 79,5 milljónir króna og mælingar, umsjón og eftirlit kostaði um 5 milljónir króna. Alls voru fjarlægðir um 90.000 rúmmetrar af efni á samningstímanum.

„Þegar suðlægar áttir eru ráðandi gefst mjög takmarkaður tími til þess að viðhalda dýpinu í höfninni, gluggarnir til að opna eru mjög stuttir. Dýpkunarskip hérna innanlands afkasta um 4.000 m3 á dag á meðan þetta skip frá Dönunum afkastar 10.000 m3 þegar aðstæður eru þannig að veðrið er ekki eins og best er á kosið en getur afkastað enn meiru ef veðrið er gott. Því þótti rétt að gera þessa tilraun til að sjá hvort mögulegt væri að opna Landeyjahöfn á mjög skömmum tíma.“

Hefði verið hægt að fá aðra aðila til þess að ráðast í þetta verkefni fyrir lægri upphæð?

„Vandamálið er að það eru ekki þetta afkastamikil skip til innanlands. Fyrir erlendan aðila má ekki vera of langt og kostnaðarsamt að koma hingað. Það er mat Vegagerðarinnar að ekki hefði verið hægt að fara í verkefnið nema semja við þennan aðila. Hann er næstur Íslandi og því „stutt“ fyrir þá að koma og einnig hefur fyrirtækið sterkan flota til þess að takast á við verkefni af þessu tagi og reynda skipstjóra,“ segir í svari Vegagerðarinnar.

„Niðurstaðan var sú að þetta er gerlegt og við hefðum líklegast ekki lent í jafn miklum vandræðum í fyrra með þessu skipi og við gerum með afkastaminna skip. Staðan í Landeyjahöfn er sú að hún hefur verið opin dýpislega séð í eitt ár. Það hefur aldrei gerst áður en skýrist nú fyrst og fremst af veðurástæðum. Björgun sá um vetrardýpkun í höfninni þangað til Danirnir mættu. Þar sem lítið kom inn í höfnina af sandi í desember og fram í febrúar gat skipið afkastað nægjanlega til að viðhalda dýpi hafnarinnar,“ segir í svari Vegagerðarinnar.