Réttindalausir leita aðstoðar hjá borginni

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Erlent starfsfólk sem nýtur engra réttinda í kerfinu hefur leitað á náðir félagsþjónustu Reykjavíkur eftir að COVID-19 faraldurinn hófst. Fólkið var ekki skráð inn í landið og laun þess voru ekki gefin upp.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, ræddi þjónustu borgarinnar við fólk á tímum heimsfaraldurs í morgunþætti RÚV.

Hún sagði að nú þegar hefði orðið ákveðin aukning í beiðnum um fjárhagsaðstoð. „Ég held að hún komi meira fram núna um mánaðamótin apríl maí og síðan jafnt og þétt. Það eru hópar sem eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð, ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Við erum í samtali við ráðuneytið um þessa hópa.“ Það eigi til dæmis við um útlendinga sem eru ekki með kennitölu, einyrkja sem eru nýbyrjaðir með atvinnustarfsemi og hafa ekki greitt tryggingagjald, og námsmenn sem hafa framfleytt sér með hlutastörfum. 

Borgin rekur margvísleg úrræði, þar á meðal gistiskýli. Nýr hópur hefur leitað aðstoðar vegna húsnæðisleysis. „Síðan er auðvitað hópur hérna, til dæmis erlendir ríkisborgarar sem eru ekki með kennitölu, sem voru að vinna en launin þeirra voru ekki gefin upp. Svolítið svartur blettur í atvinnulífinu.“ Þetta er fólk sem kemst ekki til síns heima og hefur í engin hús að leita hérlendis.

Regína sagði að reynt væri að hjálpa fólki eins og hægt væri. Hún sagði að eftir hrun hefði fjárhagsleg aðstoð aukist um hundrað milljónir fyrir hvert eitt prósent sem atvinnuleysi hækkaði. Hún sagði að gæta yrði að því að fólk ætti í sig og á, ennfremur yrði að gæta að andlegri velferð fólks.

Regína sagði að faraldurinn hefði haft margvísleg áhrif á starfsemi félagsþjónustunnar. Bæði með því að loka þyrfti sumri þjónustu tímabundið, útfæra aðra og grípa til varúðarráðstafana svo hún gæti haldið áfram og bregðast við því sem upp kemur vegna faraldursins. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi