Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kafarar þreifuðu fyrir sér í myrkri til að finna bílinn

Mynd: ÞÞ / rúv
Skjótur viðbragðstími og góð samvinna þeirra sem björguðu drengjunum sem voru í bíl sem fór í sjóinn Hafnarfjarðarhöfn í janúar varð ekki síst til þess að þeir lifðu slysið af. Aðstæður voru með versta móti og kafarar þurftu að þreifa fyrir sér í myrkri til að finna bílinn.

Hálftími leið frá því drengirnir lentu í sjónum og þar kafarar komu þeim á þurrt land. Þeir voru í hjartastoppi í tvo tíma, eða frá því að þeir lentu í vatninu og þar til þeir voru tengdir við hjarta- og lungnavél og eru fyrstu Íslendingarnir til að lifa slíkt af. 

Nokkur vitni urðu að því þegar bíllinn fór í höfnina sem gátu strax hringt í neyðarlínuna. Björgunaraðgerðir fóru því nær samstundis í gang. Slökkvilið frá Hafnarfirði var aðeins um átta mínútur á vettvang og kafarar frá slökkviliðinu komu frá Skógarhlíð nokkrum mínútum síðar.

Ískalt og dimmt

Kafararnir klæddu sig í blautbúninga í bílnum og gátu farið beint út í vatnið. Aðstæður voru með versta móti. Ískalt og dimmt. 

„Það er krapi yfir sjónum og kuldi. Þegar við stökkvum út í er í rauninni ekkert skyggni sem við höfum. Við stökkvum út í og sjáum ekki neitt, þurfum bara að láta okkur sökkva til botns. Þegar við lendum á botninum getum við hafið leit. Það sem við þurfum að gera er að við böðum út höndunum til að gera okkur aðeins stærri og eiga meiri möguleika á að finna bílinn. Við þreifum okkur áfram og svo finnum við ekki bílinn fyrr en ég í rauninni rek hendina í hann,“ segir Hafsteinn Halldórsson, aðstoðarvarðstjóri og kafari hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. 

Kafararnir voru í stöðugu sambandi við teymið á höfninni sem aðstoðaði eftir fremsta megni.

„Við sjáum þegar við lýsum inn í bílinn að strákarnir eru þar og þurftum að brjóta rúðu. Við tökum strákana út um rúðuna og komum þeim upp,“ segir Hafsteinn.

Allt gekk upp

Drengirnir voru komnir upp á land fimm mínútum eftir að kafararnir stukku út í, sem verður að teljast mettími við þessar aðstæður. Bráðatæknar tóku svo á móti drengjunum og endurlífgun hófst á leiðinni á spítalann. 

Sjá einnig: „Kraftaverk að þeir hafi allir lifað slysið af“

„Það gekk alveg gríðarlega vel. Það gekk allt upp sem átti að ganga upp, það er bara þannig,“ segir Birgir Þór Guðmundsson, bráðatæknir hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Útkall sem fylgir fólki út starfsævina

Það voru svo miklar gleðifréttir fyrir alla sem komu að aðgerðunum að heyra að drengirnir væru á batavegi.

„Þetta náttúrlega gerir starfið mitt. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu. Og gaman að eiga svona góða vinnufélaga og geta unnið svona vel saman. Þetta er ekkert bara ég, við erum öll saman í þessu,“ segir Birgir. 

Ólafur Ingi Grettisson, varðstjóri sem var með fyrstu mönnum á vettvang, tekur í sama streng.

„Þetta er mjög óvenjulegt mál. Svona útkall, það fylgir þeim sem að því koma alla starfsævina. Alltaf þegar maður kemur hérna á bryggjuna mun maður hugsa um þetta útkall.“