Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íslendingar sáttastir þjóða við COVID yfirvöld

20.04.2020 - 17:00
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Íslendingar eru ánægðastir með frammistöðu stjórnvalda vegna COVID-19 samkvæmt alþjóðlegri könnun Gallups. 92% Íslendinga telja að útbreiðsla kórónuveirunnar hafi orðið með náttúrulegum hætti. Aðeins 7% telja að ógnin vegna veirunnar sé ýkt.

Sáttir við stjórnvöld

Það kemur ekki á óvart að Ísland tróni á toppnum þegar spurt er um frammistöðu stjórnvalda. Vinsældir þríeykisins, Víðis, Þórólfs og Ölmu hafa verið miklar. 96% aðspurðra á Íslandi telja að stjórnvöld standi sig vel í viðureigninni við kórónuveiruna. 

Könnunin var gerð víðs vegar um heiminn í þessum mánuði. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem tekur þátt. Næstir á eftir Íslendingum þegar kemur að áliti á frammistöðu stjórnvalda eru Indverjar. 93% þeirra eru sátt við framgöngu stjórnvalda. Óánægjan er mest í Taílandi og Japan þar sem í kringum 20 af hundraði segja að stjórnvöld séu að standa sig vel. Þá telur um helmingur Bandaríkjamanna að stjórnvöld séu að standa sig og rétt rúmlega helmingur Rússa er sáttur við sín stjórnvöld.

Mynd með færslu
Mæling Gallups á frammistöðu stjórnvalda

Fáir Íslendingar telja að ógnin sé ýkt

Ísland sker sig úr þegar kemur að spurningunni um hvort ógnin sem stafi af COVID-19 sé ýkt. Hlutfall þeirra sem telja svo ekki vera er hvergi lægra. Aðeins 7% aðspurðra telja að hún sé ýkt. Næsta land fyrir ofan Ísland er Japan þar sem 13% telja ógnina ýkta. Pakistanar eru hins vegar á annarri skoðun. Þar telja yfir 60 af hundraði að ógnin sem stafar af veirunni sé ýkt. Sams konar könnun var gerð í mars sem Ísland tók ekki þátt í. Áberandi er að almennt hefur þeim fækkað sem telja að ógnin sé ýkt. Í mars voru til dæmis bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum 60 af hundraði sem töldu þetta ýkt. Þeim hefur snarfækkað í apríl. Nú er um fjórðungur í þessum löndum sem telur að um ýkjur sé að ræða.

Ástæður útbreiðslu veirunnar

Íslendingar virðast alls ekki vera sammála því að veirunni hafa verið dreift viljandi af erlendum aðilum eða öflum. Aðeins 8% aðspurðra Íslendinga telja svo vera og 92% álíta að útbreiðsla veirunnar hafi orðið með náttúrulegum hætti. Þetta hlutfall er hvergi hærra meðal þeirra 29 þjóða sem svara spurningunni. Næst kemur Þýskaland þar sem 77% landsmanna eru á því að náttúrulegar skýringar séu á útbreiðslu veirunnar. Þar næst kemur Bretland með svipað hlutfall. Hins vegar er Armenía sú þjóð sem hefur ekki mikla trú á náttúrulegu skýringunni. Þar eru 70 af hundraði á því að veirunni hafi verið dreift viljandi eða að útbreiðsla hennar hafi ekki orðið með náttúrulegum hætti.

Ótti við smit

Það kemur ekki á óvart að flestar þjóðirnar sem könnunin nær til óttast talsvert að smitast. 85% Íslendinga óttast að þeir eða aðrir í fjölskyldu þeirra gætu smitast. Mestur er þessi ótti í Indónesíu, 91%. Óttinn fer ekki niður fyrir 60%. Er það í Pakistan en hann er örlítið meiri í Sviss. Athygli vekur að á Ítalíu mældist óttinn við smit 91% í síðasta mánuði. Heldur hefur dregið úr honum í apríl því nú óttast 84 af hundraði smit. Þessu er öfugt farið í Bandaríkjunum. Í síðasta mánuði óttaðist rösklega helmingur Bandaríkjamanna smit. Í þessum mánuði mælist óttinn 80%.

Að fórna mannréttindum

Gallup spurði um fleiri atriði sem tengjast COVID, til dæmis hvort fólk væri tilbúið að fórna einhverjum mannréttindum sínum ef það gæti hjálpað til að koma í veg fyrir útbreiðsluna. Almennt virðist vera vilji til þess. Síst er það meðal Japana en þar er um helmingur sem er tilbúinn að fórna einhverjum mannréttindum. Indverjar eru efstir á listanum. Það segjast 96% vera tilbúin að fórna mannréttindum. Á Íslandi mælist þessi fórnfýsi 84%.

Hvernig mun heimurinn líta út?

En hvernig mun heimurinn líta út þegar veirufaraldurinn hefur gengið yfir? Gallup spurði að því. 6 af hverjum 10 Íslendingum telja að heimurinn muni nokkurn veginn hverfa til fyrra ástands. 40% telja hins vegar að það verði miklar breytingar og að heimurinn verði nánast gjörbreyttur. Þjóðverjar, Svisslendingar, Austurríkismenn og Japanar eru á svipuðu róli og við Íslendingar. Filippseyingar eru nokkuð annarrar skoðunar. Þar telja 66% að heimurinn eigi eftir að breytast mikið. Og Ítalir hafa svipaða  skoðun. 65% Ítala telja að miklar breytingar verði en 35 af hundraði að heimsbyggðin falli aftur í sömu skorður og hún var fyrir COVID.