Íslandshótel flest tóm og hótelbygging í bið

20.04.2020 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Atelier arkitektar
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að framkvæmdir við hótelbygginguna í Lækjargötu hafi verið settar í bið út apríl. Óljóst er um framhaldið. Ef ekkert verður um ferðamenn í sumar sé ljóst að ekki verður hægt að halda úti öllum sautján Íslandshótelunum.

Hótelbyggingin í Lækjargötu í bið 

Íslandshótel reka 17 hótel víðsvegar um landið. Fimm þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess er verið að reisa 140 herbergja fjögurra stjörnu hótel við Lækjargötu. Davíð Torfi segir að nú hafi þær framkvæmdir verið settar í bið. „Þetta stopp núna er í gildi út aprílmánuð. Við höfum ekki tekið neinar ákvarðanir um framhaldið enn þá, það er svo margt óljóst í þessu. Við þurfum liggur við að taka einn dag í einu.“

Áður en framkvæmdir voru stöðvaðar var verið að klára að steypa upp bygginguna og vinna við endurbætur á Vonarstræti 4.  

Trúa að ferðaþjónustan rísi aftur

Davíð segir að framkvæmdum hafi seinkað í byrjun vegna fornminjanna sem fundust. Verið er að vinna að útfærslu og frágangi þeirra með ríki og borgaryfirvöldum.  

„Við erum búin að vera í þessu síðan 1992 og gengið í gengum ýmislegt en auðvitað en ekkert í viðlíka ástandi og nú. En við höfum bara mikla trú á íslenskri ferðaþjónustu og vitum að við munum rísa upp aftur. Vonandi náum við að koma upp á jörðina fljótlega á næsta ári og svo verður bara 2022 gott ár.“

Erfið og þröng staða

Davíð segir að Íslandshótelin séu öll meira og minna lokuð. „Við erum auðvitað með fólk á hlutaleiðinni þannig að við getum alltaf tekið á móti gestum. En við höfum lokað, eins og hér í Reykjavík erum við búin að loka nánast öllum hótelum nema Grand hóteli.“

Örfáir gestir eru á hótelinu, segir Davíð. Fjárhagslega séu Íslandshótel í alvarlegri stöðu. „Við erum bara í sömu stöðu og aðrir við bíðum eftir næsta aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar til ákveða næstu skref. Við höfum viljað reyna að verja þessi störf eins og við getum en það er ljóst að ef við erum ekki að fara að sjá neinn túrisma hér á þessu ári þá auðvitað getum við ekki haldið úti þessum hótelum. Og þar af leiðandi getum við ekki verið með - hjá okkur vinna um 700 manns. Þá er staðan mjög erfið og mjög þröng.

Ætla að klára bygginguna og opna hótelið

En þið ætlið samt að halda áfram með bygginguna í Lækjargötu?

„Eins og ég segi, hún er bara á bið núna, hvort að þessari bið verði síðan framlengt áfram bara get ég ekki svarað á þessu stigi. Það á eftir að taka ákvörðun um það en við munum klára og við munum opna.“    

Mikið hefur verið afbókað í sumar en þó eru enn þá bókanir fyrir júlí og ágúst. Davíð á von á því að þær verði afbókaðar ef ekki verður flogið. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi