Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Í nálgunarbann vegna gruns um ítrekað heimilisofbeldi

20.04.2020 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Landsréttur
Landsréttur staðfesti á föstudag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um nálgunarbann vegna gruns um ítrekað ofbeldi og hótanir manns gegn eiginkonu sinni. Landsréttur gekk þó skrefinu lengra en héraðsdómur og bannaði manninum líka að hafa samband við konuna í síma, með tölvupósti eða öðrum hætti. Héraðsdómur taldi að maðurinn þyrfti að geta haft samband við konuna vegna fjárskipta við skilnað þeirra og til að ræða samvistir hans með börnum þeirra. Landsréttur taldi aðrar leiðir færar í þeim efnum.

Maðurinn er grunaður um að hafa ítrekað beitt konu sína ofbeldi. Hún flutti á tímabili út af heimilinu og fór í Kvennaathvarfið. Á sama tíma kærði hún manninn fyrir heimilisofbeldi. Hún sagði hann hafa beitt sig andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu ofbeldi í fimm ár. 

Í úrskurði héraðsdóms, sem er birtur á vef Landsréttar, segir frá atviki þar sem konan og maðurinn áttu að mæta í viðtal hjá barnaverndarnefnd. Aðeins konan mætti. Starfsmaður barnaverndarnefndar sagðist eftir þetta hafa fengið ítrekuð símtöl frá manninum. Í því hafi hann hótað starfsmanninum lífláti ef viðkomandi hætti ekki afskiptum af máli sínu og fjölskyldu sinnar. 

Í úrskurðinum er einnig lýst ofbeldi og hótunum mannsins í garð konunnar og frænda henna sem hjálpaði henni við skilnaðinn. Tilgreind eru mál frá síðasta hausti fram í mars.

Dómstólar ósammála um símtöl

Lögreglan á Suðurnesjum ákvarðaði nálgunarbann og brottvísun mannsins af heimili. Honum var bannað að koma að heimilinu, bannað að nálgast konuna eða veita henni eftirför á almannafæri. Lögreglan bannaði honum líka að hafa samband við hana með hvaða hætti sem er. Héraðsdómur Reykjaness staðfesti nálgunarbannið, en sem fyrr segir með einni breytingu. Dómstóllinn taldi að maðurinn yrði að geta haft samband við konuna, hvort sem er í gegnum síma eða í tölvupósti til að ræða fjárskipti og samskipti við börn þeirra. Konunni væri þó í sjálfsvald sett hvort hún svaraði eða ekki. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms en með þeirri breytingu að maðurinn má ekki setja sig í samband við konuna með neinum hætti. Dómarar við Landsrétt töldu að maðurinn og konan gætu ákveðið fjárskipti og umgengni með öðrum hætti, svo sem með aðstoð lögmanna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV