Hætta við kaup á rúmlega 3.000 bílaleigubílum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
„Það sem ég hef í mínum fórum er að það voru um 3.500 bílaleigubílar í pípunum. Þeir verða þó líklega mjög fáir og hlaupa á tugum eða örfáum hundruðum ef fram fer sem horfir og ekki verður komið til móts við bílgreinina varðandi opinber gjöld,“ segir Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Bílaleigur á Íslandi hafa hætt við kaup á rúmlega 3.000 nýjum bílum í vor, eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og ferðamenn hættu að koma til Íslands.

Bæði SAF og Bílgreinasambandið kalla eftir aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við stöðunni.

Fyrirvarinn styttist

Óðinn Valdimarsson, verkefnastjóri hjá Bílgreinasambandinu, segir að þeir sem koma að þessum málum séu að vinna að niðurstöðu sem henti öllum. Ljóst er að bílaumboð á Íslandi verða af miklum tekjum vegna þessa, auk þess sem hið opinbera verður af töluverðum tekjum í formi vörugjalda.

„Það er rétt að bílaleigur höfðu fest kaup á einhverjum bílum, eins og þær þurfa oftast að gera með smá fyrirvara fyrir háönnina sína, en sá fyrirvari hefur þó styst á síðustu árum og því voru ekki allar pantanir orðnar endanlegar,“ segir Óðinn.

„Þó verður væntanlega alltaf einhver hluti sem bílaleigurnar munu þurfa að taka en það verður þá unnið eins og hægt er í samstarfi bílaleiganna, bílaumboðanna og fjármögnunarfyrirtækjanna. Einhverjum afhendingum frá bílaumboðunum verður væntanlega frestað um einhvern tíma og einhverjir bílanna sem leigurnar munu taka verður lagt hjá þeim þar til fjöldi ferðamanna fer aftur upp og eftirspurnin eykst samhliða því.“

Eins og eftir hrun

Þá bendir Óðinn á að bílaleiguflotinn hafi elst nokkuð síðustu tvö til þrjú árin og því hafi verið komin nokkur endurnýjunarþörf. Því muni einhverjar bílaleigur vilja reyna að endurnýja hluta flotans í ár, þrátt fyrir ástandið. 

„Þá hefur Bílgreinasambandið sagt það um nokkurn tíma að eðlilegt væri að bílaleigurnar hljóti einhverskonar ívilnanir við bílakaup eða endurnýjun á bílaflotanum sínum. Það væri þá líkt og þær fengu framan af eftir hrun svo þær gátu á þeim tíma byggt upp eðlilegan flota til að taka á móti mikilli aukningu ferðamanna. Það væru aðgerðir sem Bílgreinasambandið mundi styðja heilshugar,“ segir Óðinn.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi