Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bróðurpartur smita síðustu daga fyrir vestan

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Tíunda andlátið hér á landi af völdum COVID-19 varð í Bolungarvík í gær. Tvö ný tilfelli greindust á landinu, bæði á Vestfjörðum.

Konan sem lést í gær var á níræðisaldri og bjó á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Á landinu hafa nú tíu látist vegna kórónuveirunnar. Sjö á Landspítalanum, einn á Húsavík og tvö á Bergi.

Hátt í 60 bakverðir á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Fimm íbúar á Bergi eru nú sýktir og fjórir í sóttkví. Álag er á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vegna faraldursins. Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar segir að þar starfa nú nálega sextíu bakverðir og hefur þurft að endurnýja liðsauka.

„Við þurfum alltaf að bæta við nokkrum á hverjum degi og í hverri viku til þess að halda þessu gangandi þangað til við fáum fólkið aftur úr sóttkví,“ segir hann.

Herta aðgerðir áfram í gildi í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði

Tvö ný tilfelli greindust hérlendis í gær, bæði á Vestfjörðum. Virk smit á landinu eru nú 402 og þar af eru 95 þeirra fyrir vestan.

Hertar aðgerðir falla úr gildi í Súðavík og á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri 27. apríl. Þessir staðir fylgja þá sömu sóttvarnarreglum og gilda á landsvísu. Fimm manna samkomubann er hins vegar áfram á Ísafirði og í Hnífsdal og Bolungarvík og skólar þar lokaðir.

„Á þessum litlu stöðum, Súðavík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, hafa ekki greinst teljandi smit. þau smit sem hafa fundist hafa verið einangruð og ekki smitað út frá sér. Sama máli gegnir ekki á Ísafirði, Bolungarvík og Hnífsdal og þar hefur verið bróðurpartur allra smita á landsvísu síðustu daga. Það er augljóst að við höfum ekki náð fullkomnum böndum á faraldurinn og þar með ekki ástæða til að létta á kröfunum enn sem komið er,“ segir Gylfi.

Flogið hefur verið með tvo sýkta frá Ísafirði. Annar þeirra er á sjúkrahúsinu á Akureyri og hinn var færður á Landspítalann í Fossvogi í fyrradag.