Ýjar að því að Kínverjar hafi dreift COVID19 vísvitandi

19.04.2020 - 02:40
epa08371356 US President Donald J. Trump delivers remarks on the COVID-19 pandemic during the coronavirus task force press briefing at the White House in Washington, DC, USA, 18 April 2020.  EPA-EFE/TASOS KATOPODIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, ýjaði enn að því í kvöld að Kínverjar hefðu hugsanlega dreift kórónuveirunni sem veldur COVID-19 heimsfaraldrinum af ásettu ráði og varaði við mögulegum eftirmálum, ef rétt reynist. Þá lýsti hann miklum efasemdum um sannleiksgildi opinberra talna kínverskra yfirvalda, um fjölda látinna og smitaðra þar í landi.

„Það hefði verð hægt að stöðva [faraldurinn] í Kína áður en hann byrjaði, og það var ekki gert," sagði forsetinn á daglegum blaðamannafundi Hvíta hússins vegna farsóttarinnar. „Og nú líður öll heimsbyggðin fyrir það," sagði forsetinn.

Þurfa að sæta afleiðingum gjörða sinna, sé ásetningur að baki

Trump var spurður að því á fundinum, hvort rétt væri að láta Kína gjalda þess með einhverjum hætti að heimsfaraldurinn, sem orðið hefur rúmlega 160.000 manns að fjörtjóni og valdið einhverri mestu efnahagskreppu sem sögur fara af, eigi upptök sín í Wuhan í Kína.

„Ef þeir gerðu þetta vísvitandi, vissulega," svaraði forsetinn. „Ef þetta voru mistök, þá eru mistök bara mistök. En ef þeir gerðu þetta vísvitandi, þá ætti það að hafa einhverjar afleiðingar já." Mikill munur væri á mistökum sem fara úr böndunum og ásetningsverknaði, undirstrikaði Trump, en „hvort sem það nú var, þá hefðu þeir átt að hleypa okkur inn. Við báðum um að fá að koma inn í þetta snemma. En þeir vildu ekki fá okkur. Ég held þeir hafi vitað að þetta var eitthvað slæmt og hafi blygðast sín,“ sagði forsetinn.

„Þeir segjast vera að rannsaka málið. Svo við skulum sjá hvað kemur út úr þeirri rannsókn. En við erum líka að gera okkar eigin rannsóknir."

Kínverjar neita og Fauci segir veiruna komna úr leðurblökum

Trump og ráðherrar og embættismenn í stjórn hans hafa ítrekað sagt að þeir útiloki ekki að kórónuveiran sem veldur COVID-19 hafi borist - að líkindum fyrir slysni - frá rannsóknastofu í Wuhan. Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sem áður hefur ýjað að því að bandaríski herinn hafi mögulega komið með veiruna til Kína, hafnar öllum slíkum kenningum og segir „engin vísindaleg rök" hníga að þessu.

Anthony Fauci, helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta í öllu er lýtur að kórónuveirunni og COVID-19, er á sama máli og segir allt sem vitað er um veiruna benda til þess að hún hafi borist úr leðurblökum í menn, mögulega með viðkomu í einhverjum millihýsli. Ekkert bendi hins vegar til þess að hún hafi verið ræktuð upp á rannsóknastofu.

Efast um uppgefinn fjölda smitaðra og látinna í Kína

Á blaðamannafundi kvöldsins ítrekaði Trump líka efasemdir sínar um opinberar tölur kínverskra yfirvalda um fjölda látinna og smitaðra í Kína. Benti hann á að samkvæmt þeim hefðu einungis þrír af hverjum milljón íbúum landsins dáið úr COVID-19, samanborið við 112 í Bandaríkjunum, 280 í Frakklandi og 423 á Spáni.

„Þetta eru ótrúlegar tölur," sagði forsetinn, „það er ómögulegt að ná svona lágum tölum." Trump er langt í frá einn um þessa skoðun og vaxandi tortryggni hefur gætt á Vesturlöndum gagnvart upplýsingum Kínverja um raunverulegt umfang og afleiðingar faraldursins þar í landi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi