Warmland, Rokky og Ljótu hálfvitarnir með nýtt

Mynd: Jeaneen Lund / Warmland

Warmland, Rokky og Ljótu hálfvitarnir með nýtt

19.04.2020 - 13:25

Höfundar

Eins og oft áður ræður fjölbreytnin ríkjum í Undiröldinni en eitt breytist aldrei og það er að tónlistin er ný og íslensk. Meðal tónlistarmanna með brakandi ferskt í eyrun þennan sunnudag eru Warmland, Rokky og Ljótu hálfvitarnir.

Warmland – Superstar Minimal

Þetta er nýjasta lag Warmland og um leið hið fyrsta af væntanlegri plötu sveitarinnar sem vonast er til að komi út seinna á árinu. Lagið sýnir nýja og poppaðri hlið á bandinu en fyrri lög sem sveitin vill meina að eigi ágætlega við ástandið í heiminum, eða eins og Logi Bergmann segir: Maður verður að vera léttur.


Húni og Kara Rós – In My Dreams

Kara Rós og Húni hafa verið að spila saman síðan 2017 og tóku meðal annars þátt í Músíktilraunum árið 2019. Þar komust þau alla leið á úrslitakvöldið með hljómsveit sinni Caravan Kids. Kara Rós og Húni hafa gefið út þrjú lög en lagið In My Dreams fékk mjög góðar viðtökur á Spotify, yfir 1000 spilanir fyrsta sólarhringinn.


Laufey Lín Bing Jónsdóttir – Street By Street

Tónlistarkonan Laufey Lín Bing Jónsdóttir sendi frá sér sitt fyrsta lag nú í byrjun apríl og það heitir Street By Street. Lagið og textinn er eftir hana sjálfa en um hljóðfæraleik og upptöku sá Davin Kingston.


Skaði Þórðardóttir ft. Haffi Haff & Chardonnay Bublée – His Touch

Listakonan Skaði Þórðardóttir sendir frá sér glænýtt lag og myndband, His Touch, sem segir sögu af framhjáhaldi sem endar í BDSM-drifnum trekanti. Skaði er ekki ein síns liðs við flutninginn á laginu því söngkonan og dragdrottningin Chardonnay Bublée og Haffi Haff syngja lagið með henni.


Dofi – Vampíra

Tónlistarmaðurinn Kristján Jóhann Júlíusson hefur sent frá sér lagið Vampíra sem hann segir að sé „sláturhúsa-reiftónlist eins og hún gerist best. Fínt fyrir vampírur í sóttkví til að dansa við.“


Rokky – My Lover

My Lover er þriðja lagið sem tónlistarkonan Ragnheiður Haraldsdóttir, eða Rokky, gefur út og er eins og hin tvö, Deux og My Lipps, kraftmikið danslag til að koma sér í stuð. Myndbandið vann Rokky síðan ásamt Margréti Seemu Takyar og hundinum Raju sem fer með aðalhlutverkið.


Ljótu hálfvitarnir – Hótel Edda

Um mánaðamótin kom út sjötta plata Ljótu hálfvitanna, Hótel Edda. Hún inniheldur tólf lög sem hafa verið í vinnslu undanfarin ár en voru kláruð í janúar á Möðruvöllum í Hörgárdal undir dyggri stjórn Einars Vilberg.


At Breakpoint – Off the Beaten Track

Hafnfirska rokksveitin At Breakpoint sendi frá sér plötuna Let Your Demons Run í síðasta mánuði. Sveitina skipa þeir Gunnar Björn Kolbeinsson, Anton Búi Jónsson, Pavol Ingi Kretovic og Bjarki Ómarsson.