Tíu útköll vegna hávaðasamra heimasamkvæma

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hvort sem það er langþráð vorið, langvinn samkomubann og lokanir skemmtistaða eða eitthvað enn annað sem veldur, þá virðast óvenju margir íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa gengið heldur rösklega fram í heimagleðinni í nótt. Þetta má ráða af tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helstu verkefni gærkvöldsins og næturinnar. Þar á meðal eru ekki færri en tíu útköll þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna samkvæmishávaða í fjölbýlishúsum.

Í Reykjavík gengu hömlulítil partíljón fram af nágrönnum sínum með hávaða og látum í hverfum 101, 104, 107 og 111, og lögregla þurfti líka að hafa afskipti af helst til villtum veisluglaumi í Hafnarfirði og Kópavogi. Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna tilkynningar um þjófnað í verslunum, dólgslega farþega í leigubíl og strætó og innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi, auk afskipta af vímuðum og réttindalausum ökumönnum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi