Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tillögum um hjúkrunarfræði skilað í skugga faraldurs

19.04.2020 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ásókn í hjúkrunarfræðinám er meiri en hægt er að anna, að óbreyttu, og því þarf að fjölga bæði námsplássum og starfsfólki og efla getu til að sinna klínísku námi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um menntun hjúkrunarfræðinga og leiðir til að fjölga þeim sem ljúka námi. Hópurinn skilaði tillögum sínum á dögunum, í skugga COVID-19 alheimsfaraldursins.

Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í tilkynningu á vef stjórnarráðsins, að faraldurinn hafi beint kastljósinu að heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þeirra fjölmörgu fastétta sem starfi innan þess og þá ekki síst hjúkrunarfræðinga. Ráðherrann kveðst taka heilshugar undir með þeim sem segi að hjúkrunarfræðingar séu hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustunni.

Segja skort á hjúkrunarfræðingum á flestum stofnunum

Í tillögum starfshópsins segir að aukin þörf sé að starfsframlagi hjúkrunarfræðinga og að á flestum heilbrigðisstofnunum sé mikill skortur á þeim. Sá vandi eigi að óbreyttu eftir að aukast á næstu árum, meðal annars vegna fjölda starfandi hjúkrunarfræðinga sem eigi eftir að láta af störfum vegna aldurs. Þá aukist hlutfall aldraðra og langveikum fjölgi hratt. 

Ekki hægt að veita öllum námsvist sem ná góðum árangri

118 nemendur þreyttu samkeppnispróf í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri í desember 2019. Þar af náðu 78 öllum prófum með góðum árangri. Þrátt fyrir það voru það aðeins 56 nemendur sem hægt var að bjóða námspláss á vormisseri vegna aðgangstakmarkana. Á sama tíma þreyttu 175 nemendur samkeppisprófin við Háskóla Íslands og voru 120 námspláss í boði. Skilyrði til að fá pláss uppfylltu 122 nemendur. „Fjöldi starfsmanna við báða háskólana er nú þegar í lágmarki miðað við núverandi nemendafjölda og við óbreyttar aðstæður er frekari fjölgun nemenda ekki möguleg,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslu sinni fjallar hópurinn um leiðir til að sporna gegn brottfalli og starfi á fyrstu starfsárunum og um leiðir til að efla skilning á störfum hjúkrunarfræðinga til að ýta undir áhuga fleiri á að mennta sig í faginu og um ríkari aðkomu hjúkrunarfræðinga að ákvarðanatöku og ráðgjöf sem snúi að heilbrigðisþjónustu. 

Aðeins 3% hjúkrunarfræðinga eru karlar

Þrjú prósent hjúkrunarfræðinga hér á landi eru karlar og segir í tillögum starfshópsins að nauðsynlegt sé að vinna að því að fjölga þeim innan stéttarinnar. Nýliðun hjúkrunarfræðinga komi því aðeins frá helmingi þjóðarinnar á meðan nýliðun í hefðbundnum karlastörfum sé frá báðum kynjum. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna illa hefur gengið að fá karla í hjúkrunarnám, segir í tillögunum. „Hugsanlega sjá þeir ekki hjúkrunarfræði sem raunhæfan möguleika sökum kynbundinna viðhorfa samfélagsins og eðlishyggju sem erfiðlega hefur gengið að uppræta,“ segir þar.

Einnig er talið áskorun að ná betur til þeirra sem ekki hafi íslensku að móðurmáli og ná þannig betur til fjölbreytileika samfélagsins. 

Starfshópinn skipuðu Vilborg Ingólfsdóttir sem var formaður hans, Gísli Kort Kristófersson fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Helga Gottfreðsdóttir, tilnefnd af Ljósmæðrafélagi Íslands, Herdís Gunnarsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Herdís Sveinsdóttir, tilnefnd af Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Hrund Scheving Thorsteinsson, tilnefnd af Landspítala, Margrét Hrönn Svavarsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri og Þórhalla Sigurðardóttir, tilnefnd af Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsmaður hópsins var Brynhildur Magnúsdóttir.