Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stefnir í fjórðu kosningarnar í Ísrael á rúmu ári

19.04.2020 - 07:39
Erlent · Asía · COVID-19 · Ísrael · Stjórnmál
Blue and White party leader Benny Gantz and his wife Revital wave to supporters at party headquarters after the first results of the elections in Tel Aviv, Israel, Wednesday, Sept. 18, 2019. (AP Photo/Oded Balilty)
Hjónin Benny og Revital Gantz að kvöldi kjördags í september 2019 Mynd: AP
Svo gæti farið að boðað verði til fjórðu þingkosninganna í Ísrael á rétt rúmu ári, þar sem fresturinn sem Benny Gantz hafði til að mynda ríkisstjórn rann út án þess að honum tækist það ætlunarverk sitt að mynda þjóðstjórn á neyðartímum. Benjamín Netanyahu, sem leiðir starfandi minnihlutastjórn, hafði áður gert árangurslausa tilraun til að mynda ríkisstjórn.

Takist þinginu ekki að koma sér saman um tilnefningu á einhverjum sem leiðir nýjar stjórnarmyndunarviðræður til lykta á næstu þremur vikum þarf að boða til kosninga í síðasta lagi 4. ágúst.

Langvarandi stjórnarkreppa

Stjórnarkreppa hefur ríkt í Ísrael undanfarna mánuði, þar sem ekkert hefur gengið að mynda meirihlutastjórn eftir þrennar kosningar. Sáralítill munur hefur verið á fylgi tveggja stærstu flokkanna; Líkúbandalags Netanyahus og Bláhvíta bandalags Benny Gantz. Hvorugur flokkurinn hefur þó komist nálægt því að fá hreinan meirihluta og hvorugum hefur tekist að fá nógu marga þingmenn annarra flokka til liðs við sig til að mynda meirihlutastjórn.

Eftir að Netanyahu mistókst að mynda slíka stjórn eftir síðustu kosningar fól naumur meirihluti þingsins Gantz það verkefni, að freista þess að mynda einskonar þjóðstjórn, með þátttöku Líkúdbandalagsins, til að koma þjóðinni í gegnum kórónuveirufaraldurinn. Þær viðræður fóru út um þúfur í vikunni.

Viðræður strönduðu á lögum sem heimila stjórn að taka fram fyrir hendur hæstaréttar

Samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins BBC strönduðu þær ekki síst á stuðningi Netanyahus við lagafrumvarp sem heimilar ríkisstjórninni að hnekkja úrskurðum hæstaréttar - þar á meðal mögulegum úrskurðum um að forsætisráðherra þurfi að víkja úr embætti.

Netanyahu hefur verið ákærður fyrir margvísleg brot í embætti, þar á meðal mútuþægni og fjársvik. Réttarhöld yfir honum áttu að hefjast í byrjun þessa mánaðar, en þeim var frestað þegar dómstólum var lokað vegna COVID-19 faraldursins, nema til að sinna brýnustu málum.

Þrjár vikur til stefnu

Gantz hafði frest fram á miðnætti á miðvikudag til að mynda nýja stjórn, og þingið fékk það verkefni á föstudag, að velja einhvern annan til að taka við keflinu, innan viku. Takist meirihluta þingsins að koma sér saman um einhvern til að reyna að mynda stjórn hefur sá eða sú hin sama tvær vikur til að klára það verk. Takist viðkomandi það ekki - eða ef þinginu tekst ekki að koma sér saman um neinn til að reyna það - verður þing rofið og efnt til kosninga, ekki síðar en 4. ágúst.