Sjóklæðagerðin hafði betur gegn Olís í deilu um 66

19.04.2020 - 17:12
Mynd með færslu
Margir brugðu sér úr Reykjavík yfir helgina. Þessi mynd er tekin við Selfoss. Mynd: Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes
Hugverkastofa hefur fellt úr gildi skráningu Olíuverzlunar Íslands, Olís, á vörumerkjunum Kaffi 66 og Ferskt 66. Sjóklæðagerðin, sem á vörumerkið 66°gráður norður, kvartaði til Hugverkastofunnar og og taldi vörumerkin vera „ruglingslega lík“.

Deilan hófst í desember 2018 þegar lögmaður Sjóklæðagerðarinnar sendi bréf þar sem krafist var að skráning Olís á vörumerkjunum „66 Ferskt“ og „Kaffi 66“ yrðu felld úr gildi.  

„Umbjóðandi okkar á fjölmargar vörumerkjaskráningar hér á landi sem innihalda tölustafina 66 sem er megin sérkennið í merki hans,“ segir meðal annars í einu bréfanna sem birt er með úrskurðum Hugverkastofu. 

66°gráður norður væri með þekktari vörumerkjum landsins og algengt væri að vísað væri til þess með því að segja einfaldlega 66. Þá var lögð fram markaðskönnun sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tók þátt tengdi við fatarmerkið þegar þeir heyrðu orðið sextíu og sex.

Lögmaður Olís benti á í svari sínu að Olís væri með veitingastaði sem auðkenndir væru með vörumerkinu Grill 66. Nafnið vísaði til þjóðvegarins sem lægi þvert yfir Bandaríkin. Einstakir réttir bæru meðal annars nafn borga og bæja sem væru við þennan þjóðveg. Ferskt 66 hefði verið notað af Olís allt frá árinu 2016 og væri augljós tilvísun í Grill 66 vörumerkið sem hefði verið skráð í febrúar 2011.

Að mati Olís væri engin hljóðlíking á milli merkjanna. Merki þess væri borið fram „ferskt sextíuogsex“ en merki Sjóklæðagerðarinnar „sextíuogsex gráður north“. Merki Olís væri sex atkvæði og hæfist á orðhlutanum „ferskt“ en merki Sjóklæðagerðarinnar væri átta atkvæði og hæfist á tölustöfunum „66“.

Lögmaður Sjóklæðagerðarinnar sagði í andmælum sínum að það gæti verið skaðlegt fyrir fyrirtækið ef einhver yrði fyrir neikvæðri reynslu hjá Olís og tengdi þá upplifun tölunni 66. Lögmaður Olís mótmælti þessum málatilbúnaði sem röngum og órökstuddum.

Hugverkastofnun komst að þeirri niðurstöðu að heildarmynd merkjanna væri svo lík að hún gæti valdið ruglingi. Var skráning vörumerkja Olís því felld úr gildi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi