Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síðasti ferðamaðurinn farinn frá Vík

Mynd: Rúv.is/Þór / Rúv.is/Þór
Fjórir af hverjum tíu íbúum í Mýrdalshreppi verða án atvinnu ef spár Vinnumálastofnunar ganga eftir. Nær öll hótel í bænum eru lokuð og sveitastjórinn óttast að íbúum muni fækka ef ástandið varir lengi.

Í venjulegu árferði er verslunarkjarninn í Vík fullur af ferðamönnum. Jafnvel yfir háveturinn stoppa rúturnar þar í unnvörpum og erlendir ferðamenn birgja sig upp af mat, drykk og jafnvel minjagripum. En nú er nánast allt tómt og útlit fyrir að svo verði áfram næstu mánuði. Ferðaþjónustan er langstærsta atvinnugreinin í Mýrdalshreppi og heimamenn hafa miklar áhyggjur af afkomu sinni.

Ekkert smit en áhrifin gríðarleg

Þótt ekkert COVID-19 tilfelli hafi komið upp í Mýrdalshreppi enn sem komið er, eru áhrif faraldursins hvergi áþreifanlegri. Á bilinu 90 til 95 prósent íbúa í þessu 750 manna sveitarfélagi starfa á einn eða annan hátt við ferðaþjónustu. Atvinnuleysi í mars mældist 21 prósent og í apríl er því spáð að fjórir af hverjum tíu íbúum verði án atvinnu.

Síðasti ferðamaðurinn fór í mars

Veitingastaðir starfa aðeins í mýflugumynd frá því sem áður var og hótel og gistihús standa tóm. Síðasti ferðamaðurinn fór 21. mars. „Við lokuðum hér hótelunum eiginlega hverju af öðru og íbúðunum og veitingasölunum hér niðri í Icewear,“ segir Elías Guðmundsson sem á og rekur Hótel Vík og Hótel Kríu.

Nær allir starfsmenn hafa farið á hlutabætur, sem hefur dempað höggið en óvissan er algjör á meðan ekki er vitað hvenær landið verður opnað á ný. „Það er ekki hægt að halda því lengi úti að vera með fólk á fjórðungslaunum en litlar sem engar tekjur.“

Áhyggjur af fækkun íbúa

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri, óttast að ástandið verði verra en spár gefa til kynna. Sveitarfélagið sé ágætlega í stakk búið til að takast á við ástandið til skamms tíma en það megi ekki vara lengi. „Ég hef áhyggjur af þessum íbúum okkar sem hér eru. Við erum 700-750 manna sveitarfélag og við vitum það að íbúafjöldinn hérna, hann getur farið mjög hratt niður. Þetta er mikið fólk sem kemur hingað til að vinna og njóta lífsins og þegar vinnan er ekki til staðar til lengri tíma þá er ég ansi hrædd um að þau hugsi sér til hreyfings.“

Hefur einnig áhrif á aðrar greinar

Jafnvel fyrirtæki sem ekki eru í ferðaþjónustu finna fyrir ástandinu. Árni Jóhannsson og fjölskylda hans hafa undanfarin níu ár rekið bleikjueldi í nágrannasveitarfélaginu Skaftárhreppi. „Það eru náttúrulega öll hótel og veitingastaðir á svæðinu lokuð og það hafa verið okkar stærstu kúnnar, þannig að það er allt stopp þar en við erum sem betur fer með einhverja viðskiptavini annars staðar líka og höfum þar af leiðandi haldið okkur aðeins á floti.“

Búnir að fá gömlu Víkina sína aftur

Mýrdælingar hafa þó ekki lagt niður vopnin og sjá, þrátt fyrir óvissuna, björtu hliðarnar á ástandinu. „Gamlir Víkarar segja að þeir eru voðalega kátir því þeir hafa fengið gömlu Víkina sína aftur.“

Sveitarstjórinn vonast eftir að Íslendingar kynni sér Vík og nágrenni í sumar, enda hafi sveitarfélagið upp á margt að bjóða. „Ég held að Íslendingar hafi litið á Vík sem svona „keyra í gegnum - stað“ fram að þessu og margir búnir að koma við í Víkurskála og vita ekki hvað Vík hefur upp á að bjóða og Mýrdalurinn allur. Þannig að ég bara skora á Íslendinga að heimsækja okkur í sumar.“