Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rannsaka hvort örplast finnist uppi á jöklum

19.04.2020 - 20:00
Mynd: Einar Rafnsson / RÚV/Landinn
„Ég býst ekki við að við finnum mikið en ég býst við að við finnum eitthvað,“ segir Ásta Margrét Ásmundsdóttir, efnafræðingur við Háskólann á Akureyri, sem rannsakar nú ásamt fleirum hvort örplast finnist í jöklum á Íslandi.

Fjallað var um rannsóknina í Landanum í kvöld en hún er unnin í samstarfi við rannsóknarstofnunina NORCE í Noregi. Vísindamennirnir hafa einnig mælt og tegundagreint örplast í drykkjarvatni og í sjávarseti í Eyjafirði.

Örplast berst með andrúmslofti

„Undanfarið hafa vísindamenn haft vaxandi áhyggjur af örplasti í náttúrunni. Þetta er svona lúmsk mengun sem er að safnast upp, sérstaklega í höfunum, segir Ásta Margrét og bætir því við að minna hafi verið rannsakað hvernig örplast berst með andrúmslofti. Rannsóknir á jöklum gætu gefið vísbendingar um það en örplast hefur til dæmis fundist í sýnum frá pólunum og eins í jöklum í Frakklandi. 

Í fyrra fór Ásta og samstarfsfólk hennar upp á Hofsjökul og tóku sýni úr jöklinum sem nú er verið að rannsaka. Niðurstaðna er þó ekki að vænta fyrr en í sumar. 

Liður í því að skilja betur útbreiðslu örplasts

„Við þekkjum ekki enn með hvaða hætti plastagnir berast frá þéttbýlum svæðum heimsins til afskektra svæða,“ segir Alessio Gomiero, eiturefnavistfræðingur hjá NORCE.

„Það er því mikilvægt fyrir okkur að mæla magn plastagna, en líka að tegundagreina, skoða stærðardreifingu agnanna og hvernig þær dreifast um heiminn. Þessar upplýsingar eru innlegg í rannsóknir sem miða að því að skilja betur útbreiðslu örplasts og með hvað hætti hún á sér stað í andrúmslofti.“