Ógleymanleg reynsla að leika á móti Gunnari Eyjólfs

Mynd: Þjóðleikhúsið / RÚV

Ógleymanleg reynsla að leika á móti Gunnari Eyjólfs

19.04.2020 - 11:59

Höfundar

Fyrsta hlutverkið sem Björn Thors hreppti eftir útskrift úr leiklistardeild Listaháskólans var í Græna Landinu í Þjóðleikhúsinu. Verkið er eftir Ólaf Hauk Símonarson og sett upp í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Leikritið er á dagskrá á RÚV2 í kvöld.

Græna Landið var frumsýnt á litla sviði Þjóðleikhússins árið 2003 með stórleikurunum Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld í aðalhlutverkum. „Ég man þegar ég fékk símtal frá Þórhalli sem bauð mér hlutverk Palla. Það var að mörgu leyti algjörlega yfirþyrmandi á þeim tíma, verandi nýútskrifaður leikari með enga reynslu, að eiga að leika á móti þekktustu kanónum þjóðarinnar, Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld,“ rifjar Björn Thors upp. Hann nálgaðist þetta stóra verkefni því með óttablandinni virðingu fyrst um sinn en hann hætti fljótlega að finna fyrir hræðslu þegar hann hitti samstarfsfólk sitt, enda voru þau „hjartahlý og dásamleg og tóku mér öll opnum örmum. Bæði leikararnir, Kristbjörg og Gunnar, og Þórhallur og allir þessir reynsluboltar sem komu að verkefninu.“

Sýningin var frumsýnd í Keflavík og síðar var hún einnig sýnd á Akureyri. Á ferðalögum með hópnum kynntist Björn Thors fyrirmyndum sínum enn betur og á persónulegan hátt. „Við fengum okkur bjór og ræddum um hvernig sýningin hefði gengið. Þá voru sagðar sögur, mjög skemmtilegt,“ rifjar hann upp. Leikritið fékk góðar viðtökur um allt land og tókst hópnum að fylla fjölmargar sýningar. Hún lifði líka lengi í hjörtum þeirra sem fóru að sjá hana. „Í mörg ár kom fólk til okkar til að tala um sýninguna því efni verksins er áleitið. Þessi minnisglöp, hugmyndin um það að eldast og hvernig fjarar undan okkur með tímanum,“ segir Björn. 

Eftir að hafa ferðast um landið var Græna Landið sett upp í útvarpshúsinu í Efstaleiti þar sem sýningin var tekin upp. „Að vera ungur leikari sem kemur inn í svona stofnun og að vinna með svona kanónum, öllu þessu fólki sem hefur svona mikla reynslu úr leikhúsum og kvikmyndum er mjög auðmýkjandi reynsla og upplifun,“ segir Björn. Og þegar á sviðið var komið fann Björn hvernig reynsluleysið hætti að þvælast fyrir honum, mótleikarar mættu honum af virðingu og á jafningjagrundvelli. „Þau voru svo gefandi, kraftmikil og skapandi. Þegar við stöndum á gólfinu að leika þessar senur skipti aldurinn engu máli.“ Og fyrir það er Björn alltaf þakklátur. „Gæðastandardinn var svo hár hjá Gunnari. Hann gerði kröfu um að maður mætti sér þar.“

Græna Landið er á dagskrá á RÚV 2 í kvöld klukkan 19:30. Gunnar Eyjólfsson, Kristbjörg Kjeld og Björn Thors í áhrifamiklu verki um hlutskipti þeirra sem glata minningunum löngu áður en lífið hverfur þeim. Er einhver von til þess að öðlast fyrirgefningu áður en allt hverfur? Höfundur: Ólafur Haukur Símonarsdon. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Má segja að við höfum kvatt Stefán með sýningunni“

Sjónvarp

Veikur maður fær leikhús að láni og segir sögu sína