Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Krían fyrr á ferðinni en venjulega

19.04.2020 - 17:37
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Vorboðinn hrjúfi, krían, er komin til landsins. Koman þykir í fyrra fallinu þó að ekki muni mörgum dögum, að sögn Brynjúlfs Brynjólfssonar, starfsmanns Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands. Hann sá í gærmorgun til tveggja kría í Óslandi á Höfn.

Kríurnar tvær eru þær fyrstu sem koma til landsins þetta vorið, svo vitað sé, að sögn Brynjúlfs. Í fyrra kom fyrsta krían 19. apríl. Hann segir að það hafi gerst áður að kríur séu komnar til landsins 18. apríl en að það sé mjög sjaldgæft. „Meðal komutími kríu hefur verið í kringum 22. apríl á undanförnum fimmtán til tuttugu árum,“ segir hann.

Brynjúlfur segir algengt að kríur hafi vetursetu á Suðurskautslandinu og að talið sé að ferðalagið taki þær um tvo til þrjá mánuði. Þær eru því á ferðalagi milli varpstöðva og vetrarstöðva í allt að hálft ár. Krían fer ekki að sjást almennt um landið fyrr en um mánaðamótin apríl, maí, að sögn Brynjúlfs. Líkt og hjá öðrum fuglum komi undanfarar og svo allur hópurinn nokkrum dögum seinna. Síðustu daga hefur sést til fjölda fugla, svo sem anda, gæsa, varðfugla og spörfugla sem eru að koma til landsins og því gósentíð hjá fuglaáhugafólki.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir