Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Er stundum líkt við Hróa Hött

Mynd: RÚV / RÚV

Er stundum líkt við Hróa Hött

19.04.2020 - 19:00
Marín Aníta Hilmarsdóttir varð í mars Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna í sveigboga. Marín Aníta, sem aðeins er 16 ára, segir að henni sé stundum líkt við Hróa Hött og hún setur stefnuna á Ólympíuleika ungmenna á næstu árum.

Marín Aníta Hilmarsdóttir er rétt orðin 16 ára og er því enn í grunnskóla en menntaskólinn tekur við næsta haust. Marín kynntist bogfimi þegar hún fékk að lauma sér með á sumarnámskeið með vinkonu sinni.

„Ég var einhvern tímann úti á pallinum með mömmu og það var svona skotsvæði við hliðina á okkur. Og hugsaði: Þetta er eitthvað sniðugt. Og viku seinna þá var vinkona mín og bróðir hennar að fara á sumarnámskeið og ég bara bauðst með og bara hélt mér ennþá hérna,” segir Marín Aníta. 

„Sko fyrst þá prófaði maður bara að skjóta eitthvað, leika sér. En síðan þegar maður ætlar að halda sér við þetta, þá byrjar maður að læra tæknina, hvernig maður notar bakið, hendurnar, passa að strengurinn fari ekki í mann. Þess vegna er ég líka með þetta, svo bolurinn er ekki fyrir.“

Hélt hún yrði síðust 

Í síðasta mánuði fór Íslandsmeistaramót Bogfimisambandsins fram og þar gerði Marín Aníta sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna og skaut þar með eldri og reyndari keppendum ref fyrir rass.

„Ég bjóst ekki við því. Ég hélt ég yrði í síðasta sæti því ég var svo lítið búin að æfa, ég var búin að vera að æfa með vitlausa skífu. Ég var bara: Ó erum við með 40 cm skífu? Þannig að ég bjóst ekki við miklu. Síðan byrjuðum við að skjóta og ég var í þriðja sæti í undankeppninni. Og ég var eitthvað: Ókei, það er fínt.  Síðan byrjaði ég að keppa við stelpurnar í útslætti og þá var mjög naumt að ég færi í bronskeppnina en ég vann það með „shoot off“, þá skýtu maður einni ör og sú sem er nær miðju vinnur og ég náði að hitta 10 sem betur fer.“

„Síðan byrjuðum við að keppa um gullið og hún vann fyrstu umferðina. Ég sagði þetta er allt í lagi, ég tapa og er í öðru sæti, það er bara fínt. Og síðan bara vann ég og ég var bara Ó!“

Stefnir hátt

Marín Aníta stefnir á að komast inn á Ólympíuleika ungmenna sem verða sumarið 2022. Til þess þarf hún að bæta sig en vantar ekki mikið uppá.

„Eina sem ég þarf að gera er að ná 600 stigum á móti annað hvort 2021 eða 2022. Ég hef náð fimmhundruð og eitthvað. En ég hef svo lítið æft mig úti, ég byrjaði bara fyrir tveimur árum. Í sumar ætla ég bara að vera úti og skjóta alltaf þegar ég get.“

Ungum iðkendum í bogfiminni hefur fjölgað undanfarin ár þó að það sé kannski öllu algengara að krakkar stundi aðrar íþróttir, til dæmis boltaíþróttir. Marín hefur því haldið skólafélögunum upplýstum um það sem hún er að æfa. 

„Ég er búin að halda svo mikið af kynningum í skólanum, ég held að þau viti allt. Fólkið sem ég tala við finnst það merkilegt að ég sé að æfa þetta af því það eru ekki margir sem eru að æfa þetta.“

 - „Færðu aldrei að heyra að þú sért eins og Katniss Everdeen eða einhver úr Hungurleikunum?“

„Jú. Eins og Hrói Höttur, þau kalla mig það oft,“ segir Marín Aníta Hilmarsdóttir

Innslagið um hana má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.