Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin ný kórónuveirusmit á Grænlandi í tvær vikur

19.04.2020 - 06:25
Mynd með færslu
 Mynd: KNR
Engin ný kórónuveirusmit hafa greinst á Grænlandi síðustu tvær vikurnar. Niðurstöður greiningar á 21 sýni bárust í gær og voru allar neikvæðar. Landlæknir Grænlands greindi frá þessu.

Alls er búið að taka og greina 1.101 sýni í landinu, langflest í Nuuk. Landlæknisembættið lét þau boð út ganga á sínum tíma, að minnst tvær, smitfríar vikur þyrftu að líða, áður en stjórnvöld gætu farið að hugað að tilslökunum á þeim ýmsu bönnum og hömlum sem í gildi eru vegna farsóttarinnar.

Kennsla hefur verið að byrja smám saman í skólum utan Nuuk, segir á vef grænlenska ríkisútvarpsins, KNR, og fyrirhugað er að hefja takmarkaða kennslu í höfuðstaðnum á miðvikudag. Landstjórnin mun kynna næstu skref í vikunni, segir í frétt KNR. Bann við ferðalögum til og frá Grænlandi gildir til 30. apríl hið minnsta, og gert er ráð fyrir að innanlandsflug og -siglingar hefjist á ný 1. maí.