
Eitrað fyrir 44 föngum úr röðum Boko Haram
Saksóknarinn, Youssouf Tom, upplýsti í sjónvarpsviðtali að leifar af banvænni ólyfjan hafi fundist við krufningu fjögurra úr hópi hinna látnu. „Við höfum jarðsett 40 hinna látnu en sendum fjóra í krufningu hjá réttarmeinafræðingi,“ sagði Tom. Eitrið segir hann hafa valdið hjartaáfalli hjá sumum hinna látnu en köfnun hjá öðrum.
Þeir áttu að mæta fyrir dómara á fimmtudag, en þegar fangaverðir hugðust sækja þá fundu þeir þá látna í fangageymslunni. Saksóknarinn segir rannsókn hafna á því, hvernig dauða fanganna bar að höndum.
Teknir í stórri hernaðaraðgerð gegn Boko Haram
Hinir látnu voru allir í hópi samtals 58 manna sem gripnir voru í umfangsmiklum aðgerðum við Tjad-vatn fyrstu vikuna í apríl, grunaðir um aðild að Boko Haram. Yfir 1.000 vígamenn samtakanna féllu í aðgerðum hersins að sögn yfirvalda, og 52 hermenn féllu í valinn. Aðgerðirnar voru svar hersins við mannskæðri árás Boko Haram á bækistöð hersins í Bohoma við Tjad vatn hinn 23. mars síðastliðinn. 98 hermenn féllu í þeirri árás.