Eins og að byrja hjá hobbitunum og enda í Mordor

Mynd: RÚV / RÚV

Eins og að byrja hjá hobbitunum og enda í Mordor

19.04.2020 - 15:40

Höfundar

„Ég held að það sé rosalega dýrmætt fyrir börn að kynnast landinu sínu svona. Að vera ekki í síma og ekki í tölvu heldur í núinu með náttúrunni,“ segir Katrín Jakobsdóttir sem fór með hóp barna í fallega göngu í íslenskri náttúru sem börnin voru sammála að væri ekki ósvipuð ævintýraheimi Hringadróttinssögu.

Í kvöld hefja göngu sína nýir ferðaþættir í umsjá útivistarhjónanna Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall þar sem þau ferðast með fólki um ósnortna náttúru Íslands. Í fyrsta þættinum slást þau í för með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og félögum í gönguhóp hennar meðfram afar fallegri fossaröð. Gangan hefst við Stöng í Þjórsárdal og á leið þeirra sjá þau ótrúlegar hraunmyndanir sem ramma inn magnaðan ævintýraheim. „Ég er ekki göngugarpur. Ég er alltaf síðust og í svona klöngri en mér finnst bara svo gaman. Svo gaman að vera úti í náttúrunni,“ segir hún. 

Hópurinn, sem á það sameiginlegt að allir tengjast Katrínu á einhvern hátt, hafði gengið nokkrum sinnum saman barnlaus en ákváðu loks að kanna hvort börnin væru til í að koma með. „Maður er latur að prófa, ímyndar sér að þau gefist upp en þetta hefur gengið gríðarlega vel. Minn yngsti er átta ára og yngsti í hópnum sjö. Þau hafa hlaupið á undan okkur svo þetta hefur reynst ótrúlega lítið mál."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krökkunum fannst engu líkara en að þau væru stödd í ævintýri

Til að útskýra fyrir yngir kynslóðinni hverju þau ættu von á í ferðalaginu sagði Katrín þeim að þau væru að fara að sjá ýmislegt sem líkist landslaginu í Hringadróttinssögu-kvikmyndunum vinsælu. „Ég sagði að þetta væri dálítið eins og að byrja í Skírinu þar sem Hobbitarnir búa þegar við byrjum í Gjánni," segir Katrín kímin. „Svo förum við meðfram háa fossi sem er eins og Róhan eða eitthvað slíkt og þegar maður kemur að dynki er það meira Mordor landslag."

Og börnin eru hjartanlega sammála því að reynslan líktist því að vera staddur í heimi Tolkiens. „Fyrir þeim var þetta gríðarlegt ævintýri. Ég held það sé rosalega dýrmætt fyrir börn að kynnast landinu sínu svona. Að vera ekki í síma og ekki í tölvu heldur í núinu með náttúrunni.“

Fyrsti þáttur Úti er á dagskrá klukkan 20:20 í kvöld á RÚV.

Tengdar fréttir

Reykjavíkurborg

Þekkir hvern bílskúr og bakgarð í 104