Í kvöld hefja göngu sína nýir ferðaþættir í umsjá útivistarhjónanna Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall þar sem þau ferðast með fólki um ósnortna náttúru Íslands. Í fyrsta þættinum slást þau í för með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og félögum í gönguhóp hennar meðfram afar fallegri fossaröð. Gangan hefst við Stöng í Þjórsárdal og á leið þeirra sjá þau ótrúlegar hraunmyndanir sem ramma inn magnaðan ævintýraheim. „Ég er ekki göngugarpur. Ég er alltaf síðust og í svona klöngri en mér finnst bara svo gaman. Svo gaman að vera úti í náttúrunni,“ segir hún.
Hópurinn, sem á það sameiginlegt að allir tengjast Katrínu á einhvern hátt, hafði gengið nokkrum sinnum saman barnlaus en ákváðu loks að kanna hvort börnin væru til í að koma með. „Maður er latur að prófa, ímyndar sér að þau gefist upp en þetta hefur gengið gríðarlega vel. Minn yngsti er átta ára og yngsti í hópnum sjö. Þau hafa hlaupið á undan okkur svo þetta hefur reynst ótrúlega lítið mál."