Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Áætla að skólahald í maí verði eins og fyrir bann

19.04.2020 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Almannavarnir áætla að skólastarf í leik- og grunnskólum fari af stað með eðlilegum hætti 4. maí. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði að fulltrúar Almannavarna hafi ekki hitt skólastjórnendur en hafi fundað um málið með fulltrúum menntamálaráðuneytis.

Tilkynnt var á dögunum að samkomubann verði rýmkað í að fimmtíu manns megi koma saman frá og með 4. maí. „Grunnhugsunin í minnisblaði sóttvarnalæknis var það að skólastarf í leik- og grunnskólum fari af stað með eðlilegum hætti,“ sagði Víðir á fundinum.

Fólk hafi túlkað upplýsingar sem hafi komið fram á upplýsingafundi Almannavarna og stjórnvalda á þann hátt að ekki verði hægt að hafa skólastarf með eðlilegum hætti, sagði Víðir. Sóttvarnalæknir ætli væntanlega í dag að skila minnisblaði um málið til heilbrigðisráðherra með útfærslu sem kveði á um að skólastarf í leik- og grunnskólum og íþrótta- og tómstundastarf barna geti frá og með 4. maí verið með nánast óheftum hætti, eins og aðstæður leyfi. „Það má segja að það verði eins og það var fyrir fyrsta samkomubann, sagði Víðir á fundinum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Hlaupahópar geta hugsanlega æft saman í sumar

Ekki hefur verið gefin út dagsetning um það hvenær líkamsræktarstöðvar og sundlaugar verða opnaðar á ný. Áfram verða töluverðar takmarkanir á íþróttastarfi fullorðinna. Víðir sagði að hugsanlega verði hægt að hafa æfingar fyrir fullorðna utanhúss, eins og æfingar hlaupahópa, í sumar. Ekki er leyfilegt að nota sameiginlegan búnað á æfingum fullorðinna.