Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Víðir hvatti ungt fólk til að passa sig betur

18.04.2020 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, hvatti ungt fólk á aldrinum 18 til 29 ára til að passa sig betur. Nærri 20 prósent af þeim sem hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi eru á þessum aldri. „Þetta er ansi stór hópur sem hefur veikst og þið þurfið að passa ykkur betur.“

Þetta kom fram á daglegum stöðufundi almannavarna í dag.   Fréttastofa fjallaði fyrr í dag um þessa tölfræði en þar kom meðal annars fram að aðeins tíu prósent barna undir átján ára aldri hafa veikst af veirunni.

Víðir sagðist engu að síður vera stoltur af því að vera hluti af þessu samfélagi því þrátt fyrir ólíkar skoðanir væru allir reiðubúnir að ganga í sömu átt. Nú yrði að halda áfram á sömu braut og gleyma ekki öllu því sem hefði verið fórnað.

Víðir ítrekað það sem hann hefur sagt áður - að 4. maí væri eftir hálfan mánuð. Þau hefðu áhyggjur af því að fólki væri létt yfir fækkun smita og vildi aðeins slaka á. „Og maður skilur það.“ Enginn hefði hins vegar áhuga á að fá eitthvað bakslag eða að innlögnum á gjörgæslu fjölgaði aftur.  Þá benti hann á að það yrði ekki síður mikil áskorun þegar skólar færu aftur á fullt. Fólk yrði að halda jafnvel meiri einbeitingu þá en núna.

Víðir sagði von á minnisblaði frá sóttvarnarlækni varðandi komur erlendra ferðamanna til landsins. Helsta verkefnið væri að fylgjast með því hvað aðrar þjóðir væru að gera. Þetta yrði gert í mjög stuttum skrefum, það fyrsta myndi væntanlega gildi inn í maí. „Menn ætla að vera tilbúnir að bregðast við.“ Hann tók jafnframt skýrt fram að sóttvarnarráðstöfunum yrði ekki breytt til að mæta efnahagsaðgerðum.

Víðir sagði engin sérstök viðmið hafa verið sett til að hætta við að slaka á aðgerðunum 4. maí.  Alltaf væri von á hópsýkingum og eftir því sem slíkt svæði væri fjölmennara yrði sífellt erfiðara að hemja hana.  Hertar aðgerðir myndu þá ná yfir stórt svæði og mikið af fólki myndi lenda í þeim. „Fólk verður að muna að við erum rétt í miðjunni á þessum faraldri og við getum ekkert slakað á.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV