Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þjóðin ber hlýhug í garð Vigdísar“

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV

„Þjóðin ber hlýhug í garð Vigdísar“

18.04.2020 - 12:59

Höfundar

Vigdís Finnbogadóttir fagnaði níræðisafmæli sínu þann 15. apríl. Vigdís var forseti Íslands í sextán ár. Kjör hennar árið 1980 vakti heimsathygli en hún var fyrst kvenna í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegri kosningu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að við eigum öll góðar minningar frá forsetatíð Vigdísar, hún hafi verið farsæll forseti.

Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands þann 29. júní árið 1980 og tók við embættinu í Alþingishúsinu 1. ágúst það ár. Hún var forseti í fjögur kjörtímabil og hefur haldið áfram að láta til sín taka eftir að hún lét af embætti árið 1996, einkum á sviðum sem tengjast menningu, tungumálum og umverfisvernd. Hún er til að mynda velgjörðasendiherra UNESCO (Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna) og árið 1997 var hún ein af stofnendum Heimsráðs kvenleiðtoga og var fyrsti formaður þess. Hún hefur hlotið heiðursdoktorsnafnbætur við fjölda háskóla út um allan heim. Og frá árinu 2001 hefur rannsóknastofnun Háskóla Íslands í erlendum málum verið við hana kennd (Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum). Guðni Th. Jóhannesson segir að afmæli Vigdísar vera merk tímamót. „Vigdís var farsæll forseti og sannarlega vel til fundið að minnast hennar forsetatíðar núna og óska henni allra heilla. Maður sér það á fésbók og víðar að þeir eru svo fjölmargir sem eiga góðar minningar um Vigdísi. Og jafnvel mynd af sér með henni. Og þetta er þá líka fyrir daga snjallsíma sem myndirnar dúkka upp, og gaman að fylgjast með hversu mikinn hlýhug þjóðin ber í garð Vigdísar.“

Forseti úr menningarlífinu

Guðni Th. Jóhannesson sendi árið 2016 frá sér bókina Fyrstu forsetarnir: Embætti þjóðhöfðingja á Íslandi á 20. öld þar sem hann rekur meðal annars hvernig embættið þróaðist í tíð þeirra forseta sem sátu Bessastaði á 20. öld, Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar, Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur. „Við getum í allra grófustu dráttum skipt fyrrverandi forsetum í tvo hópa,“ segir Guðni. „Það væru þá þeir sem hafa einhvers konar pólitískan bakgrunn og hinir sem koma frekar úr menningargeiranum. Þar væru þá Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir.“ Af pólitíska sviðinu hafi komið þeir Sveinn Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Sveinn Björnsson var fyrsti forseti lýðveldisins. „Hann sat á þingi skamma stund og er nú ekki þekktur fyrir sín pólitísku afskipti en var fyrsti sendiherra Íslands, ríkisstjóri, ráðgjafi stjórnvalda í utanríkismálum og þess háttar. Þar er hin pólitíska tenging. Ásgeir Ásgeirsson fyrrverandi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og forseti sameinaðs Alþingis og þar fram eftir götunum, sat á þingi í áraraðir fyrir tvo stjórnmálaflokka og líka utan flokka, þannig að þar er hin pólitíska tenging náttúrulega augljós. Og sama á við um Ólaf Ragnar Grímsson, eftirmann Vigdísar og forvera minn, hann kemur af hinu pólitíska sviði. Þannig að þetta hin grófa skipting. Vigdís fellur þá í menningarflokkinn. Kemur úr leikhúslífinu, þekkt fyrir sína frönskukennslu í sjónvarpinu og þykir hafa það sér til ágætis þegar gengið er að kjörborðinu árið 1980 að koma ekki úr hinu pólitíska ati.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vigdís vakti allsstaðar athygli

 

Vakti mikla athygli hvert sem hún fór

Guðni segir að kjör Vigdísar árið 1980 hafi ekki síst verið mikill sigur fyrir alla réttindabaráttu kvenna á Íslandi. „Og vakti heimsathygli, þetta var í fyrsta sinn sem þjóð kaus sér konu til forseta, og það voru mikil tíðindi.“ Guðni rifjar upp að við innsetningu Vigdísar í Alþingishúsinu þann 1. ágúst árið 1980 voru um það bil hundrað manns, þar af aðeins fimm konur, að Vigdísi með talinni. Forsetaembættið breyttist töluvert í tíð Vigdísar. Hún fór til að mynda mun víðar en fyrri forsetar. „Landkynning færðist inn á verksvið og inn í starfslýsingu forseta með Vigdísi. Það var ekki endilega ætlunin, en menn sáu strax þegar hún var kjörin að sú athygli sem þar fékkst að hana mætti nýta til góðra hluta." Hefð var og er fyrir því að forseti Íslands fari í sína fyrstu opinberu heimsókn til Danmerkur. „Sú var raunin í tíð Vigdísar í febrúar 1981. Hún hélt til Kaupmannahafnar og Margrét Þórhildur og Hinrik prins tóku á móti Vigdísi. Og öll var sú ferð mikil frægðarför. Vigdís stóð sig með glæsibrag að allra mati, var virðuleg, glæstur fulltrúi Íslands á alla lund, og það sem ekki var nú verra, hún kynnti íslenskar afurðir. Hún gekk í Álafoss-klæðnaði og það var matvælakynning og þar fram eftir götunum. Og Vigdís sló í gegn. Og lýsti því á gamansaman hátt síðar hvernig það hefði nú verið þrautin þyngri að bera þennan ullarklæðnað, sérstaklega í suðrænni löndum, en það var ljúf skylda fyrir land og þjóð." Guðni segir að ferðir Vigdísar, bæði opinberar heimsóknir og aðrar utanferðir, hafi orðið miklu fleiri en forvera hennar. „Bæði er að tíðarandinn var annar, en ekki síður hitt að hún vakti svo mikla athygli þar sem hún fór. Vel mælt á margar tungur, og glæst á alla lund. Þeir minntust á það forsprakkar íslensks atvinnulífs og framámenn í útvegi að það væri vonlaust að meta til fjár þá athygli sem fengist þegar Vigdís færi utan. Og þessi þáttur hélst auðvitað og varð á sinn hátt til hags fyrir Ólaf Ragnar Grímsson þegar hann var kjörinn forseti 1996, því hann lagði mikla áherslu á landkynningarhlutverk forseta og fólk sá þá, já það er einmitt það sem Vigdís gerði svo vel, og nú höldum við áfram þótt maður komi í manns stað.“

 
Sameiningartákn á erfiðum tímum 

Guðni Th. Jóhannesson segir að framhjá því verði ekki horft að allt frá lýðveldisstofnun og fram eftir öldinni allri, hafi Íslendingar upp til hópa litið svo á að forseti Íslands væri svonefnt sameiningartákn. „Tæki ekki þátt í pólitísku vafstri frá degi til dags, en kostaði kapps að kynna land og þjóð á erlendum vettvangi, halda um landið allt, hitta fólk víða, og leggja áherslu á það sem sameinaði okkur, sem væri þá hinn sameiginlegi menningararfur, sagan, og tungumálið, og framtíðarhagsmunir þessarar þjóðar. Þetta hlutverk rækti Vigdís og gaman að finna og sjá í dag hversu margir mæra Vigdísi einmitt fyrir þetta, og má kannski hafa til marks um það hvernig Íslendingar líta á hlutverk forseta Íslands. En það verður að taka með í reikninginn að það risu líka deilur í hennar tíð um einmitt hlutverk og stöðu forseta Íslands. Þótt við séum í hátíðarskapi núna og einbeitum okkur að því að fjalla um það sem má teljast fagnaðarefni, þá er það hinna, sagnfræðinganna, stjórnmálafræðinganna, spekinganna, að vega og meta hvað olli mestum úlfaþyt, hvað hefði betur farið, og þar fram eftir götunum.“ Guðni segir að Íslendingar hafi litið á Vigdísi sem sameiningartákn, og að því hlutverki hefði hún sinnt mjög vel. Það hafi ekki síst komið í ljós þegar snjóflóðin féllu í Súðavík og á Flateyri árið 1995, þar sem þrjátíu og fjórir létust. „Páll Valsson segir svo í ágætri ævisögu Vigdísar, sem kom út árið 2009, að sennilega hafi forsetadómur Vigdísar risið hvað hæst eftir snjóflóðin skelfilegu á Vestfjörðum 1995, þar sem hún sýndi í verki hvað það er að vera sameiningartákn, huggaði þá sem voru huggunar þurfi, talaði kjark í þjóðina, og gerði það afskaplega vel.“

Það mun birta til

Vigdís Finnbogadóttir fagnaði níræðisafmæli sínu í skugga samkomubanns. Guðni Th. Jóhannesson segir að þótt á móti blási nú muni birta til og hann bindur vonir við að við drögum lærdóm af fárinu. „Ég finn auðvitað eins og aðrir að veiran skæða varpar skugga á þjóðlífið allt. Og við finnum það bara á þessum degi, þar sem fólk hefði að öllu jöfnu komið saman og fagnað fyrrverandi forseta vorum, að allt er úr skorðum gengið.“ Hann segir það fagnaðarefni hversu vel okkur tekst upp til hópa að laga okkur að erfiðum aðstæðum og „þola þessa mæðusömu daga“. „Vissulega er hugur manns hjá þeim sem misst hafa ástvini, hjá þeim hafa sýkst illa og veikst, og hjá þeim sem hafa misst sína vinnu og eru kvíðnir yfir ástandinu og framtíðinni. En þegar horft er yfir sviðið allt og þjóðlífið allt, þá hljótum við að eiga von í brjósti, við hljótum að geta sagt við okkur sjálf, við sýnum núna þá samstöðu og samkennd sem þarf. Og þessu mun létta, það mun birta til, og þá getum við aftur tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið, að hitta mann og annan, að gleðjast á góðum stundum, að sinna okkar daglega lífi, og jafnvel læra af þessari erfiðu og bitru reynslu, sjá hvernig við getum hagað okkar lífi í framtíðinni betur í ljósi þess sem við lærðum í skugga veirunnar. Og hver veit nema sú verði raunin, að þótt það verði að ítreka að það er ekkert, ekki eitt einasta atriði, gott við þetta fár, og þessa farsótt, þá er það þó svo að maður getur lært af því sem lífið færir manni að takast á hendur. Og hver veit nema við getum í framhaldinu sagt við okkur, eftir þessa daga ákvað ég að nú skyldi ég gera þetta aðeins öðruvísi en ég gerði áður, og þar fram eftir götunum. Þannig að við lærum þá eitthvað af þessu líka.“

Rætt var við Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands á afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur í Víðsjá. 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Heiðruðu Vigdísi með óperusöng á afmælisdaginn

Bókmenntir

„Vigdís braust úr fjötrunum með hugrekki og gáfum“

Kvikmyndir

„Mikið er ég feginn Vigdís að þú ert ekki gift“