Mátti ekki veita upplýsingar um fyrndar kröfur

18.04.2020 - 18:34
Höfuðstöðvar Landsbankans
 Mynd: RÚV
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landsbankanum hafi ekki verið heimilt að veita Creditinfo upplýsingar um fyrndar kröfur á hendur einstaklingi.

Íslandsbanki neitaði manneskjunni um kortaviðskipti þar sem send hafði verið fyrirspurn í skuldastöðukerfi Creditinfo og þar sést töluverð vanskil vegna eldri lána hjá Landsbankanum. Bankinn hafði á sínum tíma miðlað inn í kerfið upplýsingum um lán sem var fallið niður vegna fyrningar, þar á meðal voru upplýsingar um fjárhæð eftirstöðva og vanskila, greiðslubyrði og dagsetningu elstu vanskila, að því er segir í úrskurði Persónuverndar

Landsbankinn beitti þeim rökum að upplýsingum hafi ekki verið miðlað beint til Íslandsbanka heldur hafi þetta einungis verið gagnaskil í skuldastöðukerfið. Sá sem kvartaði hafi verið gjaldþrota og ekki hafi fengist greiðsla upp í almennar kröfur. Þær hafi í kjölfarið verið afskrifaðar og felldar niður úr lánakerfum bankans. Innheimtuaðgerðum hafi ekki verið lokið gagnvart maka kvartanda og því hafi ekki verið hægt að afskrifa skuldina og þar af leiðandi hafi verið upplýsingar um skuldastöðu áhvílandi veðlána í skuldastöðukerfinu.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að þessi miðlun Landsbankans á upplýsingum um fyrndar skuldir hafi ekki samrýmst lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi