Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Má segja að við höfum kvatt Stefán með sýningunni“

Mynd: Þjóðleikhúsið / RÚV

„Má segja að við höfum kvatt Stefán með sýningunni“

18.04.2020 - 09:16

Höfundar

„Ég held við höfum leikið hana í tvö og hálft ár í fyrsta holli, 180 sýningar og eitthvað um 40.000 manns sem sáu sýninguna,“ segir Hilmir Snær Guðnason um Með fulla vasa af grjóti sem fyrst var sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 2000. Upptaka af lokasýningu verksins frá árinu 2017 er á dagskrá RÚV 2 kl. 19.30 í kvöld.

Írska leikskáldið Mary Jones skrifaði Með fulla vasa af grjóti og eiginmaður hennar, Ian McElhinney, leikstýrði. Aðalpersónur verksins eru tveir náungar sem ráða sig sem aukaleikara í Hollywoodkvikmynd sem verið er að taka upp í nágrenni lítils þorps á vesturströnd Írlands. Fljótlega setur starfsemi kvikmyndafyrirtækisins allt á annan endann með spaugilegum árekstrum þotuliðsins og heimamann. Þeir Hilmir Snær og Stefán Karl leika allar persónurnar í verkinu.

Sýningin fór aftur á fjalirnar árið 2012 og gekk þá heillengi. Árið 2017 voru tíu sýningar og sú síðasta var í beinni útsendingu á RÚV. Það er sýningin sem er á dagskrá í kvöld. Þegar sýningin var fyrst sett upp árið 2000 fóru þeir einnig með hana í ferðalag út á land. „Tókum Norðurland, Austurland og sýndum hana 14 sinnum á 15 dögum. Við vorum ansi hreint þreyttir, ég fékk beinhimnubólgu eftir á, sem er svona íþróttameiðsl, það er einu íþróttameiðslin sem ég hef fengið um ævina. Það kom til út af írskum dansi sem við gerum í sýningunni, þar sem er mikið stappað niður fótunum.“

Hilmir Snær segir að í upphafi hafi leikstjórinn Ian McElhinney haft frekar lítinn tíma, enda vinsæll sjónvarpsleikari sem lék til að mynda í Game of Thrones fyrir stuttu. „Hann hafði tvær vikur í byrjun og fór yfir það sem hann kallaði landakort sýningarinnar. Kenndi okkur hvernig átti að skipta um hlutverk. Eftir þetta vorum við Stefán Karl svolítið einir á báti, hann fór og kom ekki aftur fyrr en tveimur vikum fyrir frumsýningu.“ Þeir hafi þess vegna sjálfir skapað stóran hluta af persónueinkennum. „Svo kom hann aftur, samþykkti sumt, en sums staðar höfðum við farið aðeins offari, enda ungir leikarar.“

Verkið var svo sett upp í síðasta sinn árið 2017 þegar Stefán Karl atti hörðu kappi við krabbameinið sem dró hann til dauða tæplega ári síðar. „Þegar við gerum þetta í síðasta sinn var það svolítið einkennilegt. Við höfðum náttúrulega lært mikið, orðnir eldri og sjóaðri leikarar. Þegar við horfðum á myndband af okkur að setja upp verkið 17 árum áður eiginlega blöskraði okkur hamagangurinn í ungu leikurunum sem við vorum á þeim tíma.“ Þeir hafi ákveðið að halda hamagangnum niðri í þetta skiptið. „Við keyrðum meira á alvörunni í verkinu, sögu og strúktúr. Slepptum fíflagangi og því að mjólka hlátur. En þessi sýning hefur sérstaka dýpt og merkingu fyrir mig. Þetta var náttúrulega síðasta sýningin sem Stefán Karl lék í og mér þykir vænt um hana, vegna þess að það má segja að við höfum kvatt Stefán með sýningunni. Að fá að taka þátt í því með honum var alveg einstakt.“

Tengdar fréttir

Innlent

Forsetinn minntist Stefáns Karls

Leiklist

„Ég lifi í tíu vikna köflum“

Leiklist

Stefán Karl fékk tré frá Þjóðleikhúsinu

Leiklist

„Stefán Karl, er þér alvara?“